Viðskipti innlent

Fjármálaráðuneytið hafnar því að ráðuneytisstjóri hafi brotið lög

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjármálaráðuneytið hafnar því að hafa beint tilmælum til Bankasýslu ríkisins vegna skipunar á stjórnarformanni og frestunar á stjórnarfundi íslensk fjármálafyrirtækis.
Fjármálaráðuneytið hafnar því að hafa beint tilmælum til Bankasýslu ríkisins vegna skipunar á stjórnarformanni og frestunar á stjórnarfundi íslensk fjármálafyrirtækis. vísir/anton brink
Fjármálaráðuneytið hafnar því að hafa beint tilmælum til Bankasýslu ríkisins vegna skipunar á stjórnarformanni og frestunar á stjórnarfundi íslensk fjármálafyrirtækis.

Fram hefur komið að forstjóri Bankasýslunnar, Jón Gunnar Jónsson, telji að Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri, hafi brotið lög þegar hann hafði tvívegis samband við sig og reyndi að hafa áhrif á val á stjórnarformanni íslensks fjármálafyrirtækis. Þá beindi ráðuneytisstjórinn jafnframt þeim tilmælum til forstjórans að hann beitti sér fyrir því að umrætt fyrirtæki frestaði stjórnarfundi.

Í skriflegu svari ráðuneytisins segir að þegar sameina átti Sparisjóð Norðurlands og Sparisjóð Bolungarvíkur í júlí í fyrra hafi legið fyrir að óeining væri um sameininguna. Bolvíkingar voru óánægðir með hana og var því hætta á að sameiningin myndi ekki ganga eftir.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, óskaði eftir því við ráðuneytisstjóra að „upplýsingum um óánægju heimamanna yrði komið á framfæri við Bankasýslu ríkisins og leita þyrfti leiða til að tryggja samstöðu um sameiningu þessara tveggja sparisjóða í samræmi við markmið eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, þar sem segir að stuðla skuli að hagræðingu í fjármálakerfinu, og stefnu Bankasýslunnar.“

Ráðuneytisstjóri hafi því tekið málið upp við þáverandi formann Bankasýslunnar sem og forstjórann og komið sjónarmiðum Bolvíkinga á framfæri.

„Í þeim samtölum kom fram að e.t.v. væri möguleiki að seinka boðuðum stjórnarfundi hins sameinaða sparisjóðs ef það mætti verða til að tryggja að sátt gæti orðið um framhald málsins.

Ekki var af hálfu ráðuneytisins óskað eftir sérstökum trúnaði um þessi samtöl og því fer fjarri að þessi samtöl hafi falið í sér tilmæli af hálfu ráðuneytisins, enda er sérstaklega kveðið á um veitingu tilmæla frá ráðuneytinu til stofnunarinnar í lögum um Bankasýslu ríkisins nr. 88/2009, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.“

Í svari ráðuneytisins kemur jafnframt fram að málið hafi verið rætt í þáverandi stjórn Bankasýslunnar.


Tengdar fréttir

Forstjóri Bankasýslunnar telur ráðuneytisstjóra hafa brotið lög

Seinasta sumar hafði Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, tvívegis beint samband við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslu ríkisins og reyndi að hafa áhrif á val á stjórnarformanni íslensks fjármálafyrirtækis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×