Erlent

Fjármálaráðherrann verður nýr forsætisráðherra Nýja-Sjálands

Atli Ísleifsson skrifar
Bill English hefur áður gegnt stöðu leiðtoga Þjóðarflokksins.
Bill English hefur áður gegnt stöðu leiðtoga Þjóðarflokksins. Vísir/AFP
Bill English, fjármálaráðherra Nýja-Sjálands, verður næsti forsætisráðherra landsins, en aðrir þeir sem sóttust eftir leiðtogaembætti í Þjóðarflokksnum drógu framboð sín til baka fyrr í dag.

John Key tilkynnti óvænt fyrr í vikunni að hann hugðist láta af embætti forsætisráðherra eftir að hafa gegnt stöðunni í átta ár.

Heilbrigðismálaráðherrann Jonathan Coleman og ráðherra lögreglumála, Judith Collins, tilkynntu í dag að þau drægju framboð sín til baka eftir að ljóst var að English nyti stuðnings meirihluta þingflokks Þjóðarflokksins.

English hefur gegnt embætti fjármálaráðherra frá árinu 2008, en samhliða því hefur hann verið aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn hins vinsæla Key.

English hefur áður verið leiðtogi Þjóðarflokksins, á árunum 2001 til 2003, en undir hans stjórn beið Þjóðarflokkurinn sögulegan ósigur í þingkosningum 2002.

English mun formlega taka við forsætisráðherraembættinu á mánudag.


Tengdar fréttir

John Key segir óvænt af sér

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands hefur óvænt tilkynnt að hann muni segja af sér embætti eftir rúm átta ár í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×