Lífið

Fjármagna orgel með tónleikum

Valgerður Þ. Jónsdóttir skrifar
Björgvin Tómasson orgelsmiður hefur hafist handa við smíði orgels fyrir Guðríðarkirkju.
Björgvin Tómasson orgelsmiður hefur hafist handa við smíði orgels fyrir Guðríðarkirkju.
„Orgelið mun standa næstu 400 árin,“ segir Davíð Ólafsson, skipuleggjandi stórtónleika í Guðríðarkirkju í Grafarholti, sem haldnir verða síðdegis á laugardaginn,

Allur ágóðinn rennur í tónlistarsjóð kirkjunnar og þá fyrst og fremst til að fjármagna sérsmíðað, íslenskt orgel, sem stefnt er á að tekið verði í notkun um páskana 2015.

„Eini orgelsmiður landsins, Björgvin Tómasson, tók verkið að sér 2007, sama ár og Guðríðarkirkja var vígð. Hann hefur lokið við að smíða ytra byrðið, en tekur síðan til við að setja pípurnar í og tengja orgelverkið saman,“ upplýsir Davíð.

Hann bætir við að kirkjan sé ódýrasta kirkja sem byggð hafi verið á Íslandi og frábær til tónleikahalds enda sé hún hljóðhönnuð sem tónleikahús og fyrir upptökur.

Upplifun tónleikagesta verður því vafalítið góð þegar þeir hlýða á Karlakór Kjalnesinga ásamt Bjarna Ara og Stormsveitina með Pétri Erni í Buffinu í Guðríðarkirkju. Að öðru leyti spannar efnisskráin tónlist sem flestum er kunn, allt frá íslenskum karlakórslögum og þjóðlögum til Queen og Metallica í metnaðarfullum útsetningum, að sögn Davíðs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×