Innlent

Fjarlægðu fíkniefni úr unglingapartýi í Hafnarfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu.
Frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu. Vísir/GVA
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af manni sem gekk berserksgang í Austurbænum á tíunda tímanum í gærkvöldi. Var hann þar að skemma bifreið sem hann er skráður fyrir og söguð sjónarvottar að maðurinn hafi verið „mjög drukkinn og ógnandi.“

Þegar lögregla kom á vettvang brást maðurinn illa við og í skeyti lögreglunnar segir að ekki hafa þýtt að ræða við hann. Var hann því handtekinn og fluttur á lögreglustöðina Hverfisgötu þar sem hann var vistaður í fangageymslu.

Lögreglumenn í Hafnarfirði fengu tilkynningu klukkan 23:30 um ónæði sem stafaði að unglingapartýi í bænum. Við leit í partýinu fannst lítilræði af ætluðum fíkniefnum. Ekki er tekið fram í dagbók lögreglu hversu margir unglingar hafi sótt teitið en greint er frá því að aðstandendur hafi verið látnir vita og að málið hafi verið afgreitt með „vettvangsformi“ eins og það er orðað.

Það var að sama skapi á tólfa tímanum sem lögreglu barst ábending um líkamsárás á skemmtistað í Árbænum. Þar hafði maður ráðist á tvo gesti staðarins en segir lögreglan að ekki sé vitað um meiðsli þolenda. Árásarmaðurinn hafi hins vegar verið á staðnum þegar lögreglu bar að garði og var hann vistaður í fangageymslu vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×