Innlent

Fjárhagserfiðleikar þrátt fyrir greiðsluaðlögun

Linda Blöndal skrifar
Rúmlega 9200 umsóknir vegna greiðsluerfiðleika hafa borist Umboðmanni á þeim fjórum árum sem hann hefur starfað. Um 36 prósent af þeim rúmlega 5000 einstaklinga sem komust í greiðsluaðlögun á hins vegar enn í verulegum skuldavanda vegna lágra tekna. Könnunin var kynnt hjá Umboðsmanni í morgun.

Fram kom í máli Ástu Sigrúnar Helgadóttur umboðsmanns að meira en 70 prósent segja viðmót starfsfólks almennt gott. Í könnuninni sjáist að ánægjan hafi aukist með tímanum sem sýni að starf embættisins hafi þróast í rétta átt. 



Helmingur umsóknar fór í greiðsluaðlögun

Af hinum 9200 umsóknum var beðið var um fjárhagsaðstoð til dæmis vegna gjaldþrotaskipta en flestir eða 5200 sóttu um greiðsluaðlögun og er 4900 málanna lokið. Um helmingur þeirra hefur fengið greiðsluaðlögunarsamning við kröfuhafa og þar með einhverja niðurfellingu skulda. Um 30 prósent var hins vegar synjað um greiðsluaðlögun og 17 prósent dró umsókn sína til baka. Ásta Sigrún segir að það geti ekki talist lágt hlutfall af umsóknum sem komist í greiðsluaðlögun miðað við ánægjumælingu í könnuninni.



Ríkið verður að koma meira að borðinu

Ásta bendir á að ríkið sem eigi kröfur á einstaklinga þurfi að koma meira kerfisbundið að úrlausnum mála, varðandi skuldir eins og skattaskuldir, meðlagsskuldir og aðrar skuldir við opinberar stofnanir. Það hafi lengi verið rætt og verði það áfram í aðdraganda breyttra laga um Umboðsmann.

Óleyst mál frá 2010

Reynsla Sigrúnar Theodóru Steinþórsdóttur, þriggja barna einstæðrar móður og kennara í Mosfellsbæ er þó ekki góð en hún leitaði til umboðsmanns skuldara árið 2010. Mál hennar hefur nú verið óleyst hjá kærunefnd Umboðsmanns í næstum heilt ár. Kærunefndin er sjálfstæð stjórnsýslunefnd innan velferðarráðuneytisins.

Lagði ekki nóg til hliðar

Sigrún sem ræddi við Stöð 2 í kvöld, segir að hún hafi átt að leggja fyrir 3,4 milljónir í banka á 22 mánuðum sem hún var í greiðsluskjóli. Hún hafi bent á að hún hafi ekki haft efni á því, annnars hefði hún ekki sótt um fjárhagshjálp til að byrja með. "En þeir hlustuðu ekkert á það", sagði Sigrún. Reiknað er með lægri framfærslukostnaði hjá Umboðsmanni en gert er innan Velferðarráðuneytisins og segir Ásta Sigrún ástæðuna þá að úrræðin séu hugsuð til skamms tíma.  

Þrír ólíkir umsjónarmenn

Sigrún segir að þrír umsjónarmenn hafi haft með mál hennar að gera og ferlið sé búið að vera mjög langt og óvissukennt. Fyrsti umsjónarmaðurinn sem henni var úthlutað hafi verið skilningsríkur og sett sig vel inn í hennar mál en Sigrún skildi árið 2007 og býr í húsi með þremur börnum sem er að fullu veðsett. Hún segist því ekki hafa getað selt húsið til að afla fjár og ekki haft efni á því að fara á leigumarkaðinn. Bið eftir félagslegu húsnæði væri mjög löng.

Leið eins og þriðja flokks manneskju

Annar umsjónarmaðurinn, segir Sigrún, vissi lítið sem ekkert um hennar mál og sýndi því lítinn áhuga. "Ég fékk svo einungis einn fund með þriðja umsjónarmanninum og eftir fundinn fékk ég póst frá honum þar sem hann ætlaði að leggja það til að neita mér um greiðsluaðlögun og vildi til dæmis fá kvittanir fyrir hlutum sem ég hafði keypt fyrir fjölskylduna eins og tvö reiðhjól á 15 þúsund hvort á bland.is fyrir syni mína og 20 þúsund króna sófa á heimilið á bland. Sigrún segist hafa upplifað þjónustuna eins og að geðþóttaákvarðanir réðu ferð. "Ég varð eftir síðasta fundinn mjög svartsýn, reið og sár yfir því hvers konar meðferð maður fékk. Mér fannst ekkert hlustað á mig, enginn skilningur og mér fannst þetta hreinlega bara niðurlæging. Mér leið eins og þriðja flokks manneskju. Stimpluð sem skuldari".

Vilja fá reynslu fólks fram

Ásta Sigrún segir að könnunin sem kynnt var í morgun og er gerð í fyrsta sinn hafi einmitt verið til að skoða hvernig tekist hefur til en hún fagnaði því að fólk stigi fram og benti á það sem betur mætti fara í þjónustunni.

Í könnuninni kom einnig fram að tekjulægri notendur eru ánægðari en hinir tekjuhærri. Ríflega 60 prósent þeirra sem hafa fengið greiðsluaðlögunarsamninga telji sig geta staðið við þá en tíu prósent alls ekki. Konur telja sig frekar geta staðið við samninginn en karlar.

63 prósent svarenda sögðu að úrræði Umboðsmanns hafi komið í veg fyrir frekari skuldasöfnun og rúmur þriðjungur hafi getað komið alfarið í veg fyrir frekari umframskuldir.

Rúmlega þriðjungur sem fékk úrræði hjá Umboðsmanni er þó enn í miklum efnahagslegum þrenginum þótt skuldir hafi verið felldar niður eða 36 prósent úr þeim hópi. 

Betri staða hjá rúmlega 40 prósent umsækjenda

Um hvort fjárhagsstaða sé betri en áður eftir aðstoð segja rúmlega 40 prósent af öllum sem sóttum um hjálp svo vera en tæpur fjórðungur telur hana verri, eins eða svipaða.

Nánar má lesa um könnunina á vef Umboðsmanns www.ums.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×