Viðskipti innlent

Fjárfestingin tvöfalt meiri en áætlað var

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frá skóflustungu í nóvember 2013 ÞG verktakar byggja Hátæknisetrið í samvinnu við PK arkitekta, Eflu verkfræðistofu og Lagnatækni. Um 400 ársverk verða til á framkvæmdatímanum.
Frá skóflustungu í nóvember 2013 ÞG verktakar byggja Hátæknisetrið í samvinnu við PK arkitekta, Eflu verkfræðistofu og Lagnatækni. Um 400 ársverk verða til á framkvæmdatímanum. Fréttablaðið/GVA
Heildarfjárfesting Alvotech, systurfyrirtækis samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, á sviði líftæknilyfja er tvöfalt hærri en kynnt var í nóvember í fyrra þegar framkvæmdir hófust við nýtt 13 þúsund fermetra Hátæknisetur í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Ástæðan er sögð að ákveðið hafi verið að þróa fleiri lyf en upphaflega hafi verið áætlað.

Fram kemur í tilkynningu fyrirtækisins að á næstu árum nemi fjárfestingin um 500 milljónum evra, eða sem svarar um 75 milljörðum króna.

Er þá talin með fjárfesting í fullbúnu húsi fyrir um átta milljarða króna. Stærsti hluti fjárfestingarinnar er hins vegar sagður vegna þróunar- og rannsóknarkostnaðar og klínískra rannsókna.

Á næstu mánuðum ræður Alvotech í 50 fyrstu störfin við Hátæknisetrið.

„Nú er auglýst eftir 35 háskólamenntuðum Íslendingum með raunvísindabakgrunn og fyrri hluta næsta árs verður ráðningum haldið áfram,“ segir í tilkynningu Alvotech og bætt við að búast megi við að um 200 ný störf verði til í tengslum við starfsemina á næstu árum.

Andreas Herrmann
Unnið verður að þróun og framleiðslu líftæknilyfja í Hátæknisetrinu. Gert er ráð fyrir að taka húsið í notkun í ársbyrjun 2016.

„Sex líftæknilyf eru nú í þróun hjá Alvotech í samvinnu við erlenda samstarfsaðila og fyrstu lyf fyrirtækisins fara á markað árið 2018 þegar einkaleyfi þeirra renna út.“ 

Haft er eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og stofnanda Alvotech, að ánægjulegt sé að geta byggt upp starfsemi hér á landi.

„Alþjóðlegur lyfjamarkaður er á miklum tímamótum um þessar mundir. Mörg af söluhæstu lyfjum heims í dag eru líftæknilyf og fjöldi slíkra lyfja rennur af einkaleyfi á næstu árum.

Viðskiptamódel alþjóðlegra samheitalyfjafyrirtækja er að breytast og við viljum vera leiðandi í því ferli,“ segir hann. 

Þá er haft eftir Andreas Herrmann, forstjóra Alvotech, að árlegt söluverðmæti líftæknilyfja sem renna af einkaleyfi til ársins 2020 sé um 100 milljarðar Bandaríkjadala.

„Það er því eftir miklu að slægjast. Við stefnum að því að vera í hópi fyrstu fyrirtækja á markað með okkar lyf þegar einkaleyfi renna út árið 2018 og síðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×