Viðskipti innlent

Fjárfestingarleiðin ekki skilað tilætluðum árangri

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson
Stór hluti þeirra fjármuna sem farið hafa í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans hefði líklega komið til Íslands án leiðarinnar. Þetta er mat greiningar Íslandsbanka.

„Það hefur verið töluverð umfjöllun um íslensk fyrirtæki og fjárfesta sem hafa komið með peninga í gegnum leiðina og þær fréttir hafa í mörgum tilfellum verið staðfestar. Á sama tíma er lítið um erlenda fjárfestingu þannig að það er torséð að hún ætti að geta verið að baki þessum tugum milljarða," segir Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur í greiningardeild Íslandsbanka, og bætir við að fjárfestingarleiðin hafi í það minnsta aðra ásýnd yfir sér nú en þegar hún var kynnt en þá hafi hún verið látin hljóma eins og farvegur fyrir erlenda fjárfestingu.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka frá því á mánudag segir að hugsanlegt sé að talsverður hluti þess fjár sem komið hefur til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina hefði ella komið inn í gegnum innlendan gjaldeyrismarkað. Sé sú raunin hafi gjaldeyrisútboð Seðlabankans dregið úr innflæði gjaldeyris á almennum markaði og þannig haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar. Samandregið sé þó erfitt að sjá hvort þau áhrif vegi þyngra en áhrif vegna innflæðis fjármagns sem hefði ekki komið til Íslands án leiðarinnar.

Fjárfestingarleiðin var sett af stað snemma árs í fyrra en hún er skref í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta. Í henni kaupir bankinn erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar. Alls fóru ríflega 45 milljarðar króna í gegnum leiðina á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×