Innlent

Fjallað um öll umsóknarríkin nema Ísland

Þorfinnur Ómarsson í Brussel skrifar
Stefan Fule á fundinum í dag.
Stefan Fule á fundinum í dag. Vísir/Getty
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í dag stöðu aðildarviðræðna við þau ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu. Sérstök skýrsla verður kynnt um öll umsóknarríki, ef Ísland er frátalið, en ESB telur ekki þörf á slíku vegna afstöðu íslenskra stjórnvalda til aðildarviðræðna. Af sömu ástæðu ítrekar framkvæmdastjórnin að svokallaðir IPA styrkir séu ekki í boði.

Stefan Fule, fráfarandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins, kynnti stöðu aðildarviðræðna við þau ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu, í Evrópuþinginu í hádeginu og svo á fréttamannafundi í Brussel.

Um er að ræða skýrslur um sjö umsóknarríki og hefur fréttastofa þær undir höndum, en þetta eru sex ríki á Balkanskaga auk Tyrklands. Að þessu sinni telur framkvæmdastjórn ESB ekki þörf á að gera sérstaka skýrslu um Ísland – jafnvel þótt Ísland teljist formlega enn í hópi umsóknarríkja. Í því sambandi má hafa í huga að aðildarviðræður við Tyrkland hafa í raun verið í frosti um árabil og engar horfur á breytingum þar á á næstunni – en þó er fjallað um Tyrkland sérstaklega.

Í samantekt framkvæmdastjórnarinnar má þó finna nokkrar setningar um Ísland, en þar er bent á að íslensk stjórnvöld hafi stöðvað aðildarviðræður í maí 2013 og því sé engin þörf á sérstakri umfjöllun um Ísland. Athygli vekur að framkvæmdastjórn ESB telur viðræðum ekki hafa verið hætt fyrr en í maí í fyrra, þ.e. eftir að ný ríkisstjórn tók við á Íslandi, jafnvel þó fyrri ríkisstjórn hafi gert viðræðuhlé í janúar sama ár.

Þá er ítrekað í skýrlsunni að svokölluðum IPA-styrkjum til íslenskra verkefna hafi verið aflýst vegna viðhorfa núverandi stjórnvalda á Íslandi. Heimildir fréttastofu herma að íslenskum stjórnvöldum hafi verið fullkunnugt um þessa afstöðu framkvæmdastjórnarinnar áður en aðildarviðræður voru stöðvaðar.

Að lokum er þess getið að Ísland sé enn talinn mikilvægur samstarfsaðili Evrópusambandsins, meðal annars í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, aðild að Schengen og vegna hagsmuna á norðurslóðum.


Tengdar fréttir

Vigdís segir rök í ESB-skýrslu vera haldlaus

"Mér finnst þessi gagnrýni afskaplega ómakleg og bið hana vinsamlega að lesa úttektina áður en hún kemur með þvílíkar yfirlýsingar," segir einn skýrsluhöfunda

Össur segir ESB umsókn í fullu gildi

Össur Skarphéðinsson segir afstöðu Jean-Claude Juncker passa Íslendingum vel. Ný ríkisstjórn geti klárað aðildarviðræður innan fimm ára.

Aðildarviðræður gætu hafist á ný

Sendiráð ESB á Íslandi áréttar að framkvæmdastjórn ESB sé reiðubúin að hefja á ný aðildarviðræður við Ísland, komi um það ósk héðan. Nýr forseti framkvæmdastjórnarinnar segir ný ríki ekki bætast við næstu fimm ár.

ESB lítur enn á Ísland sem umsóknarríki

Talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins segir sambandið reiðubúið að taka upp aðildarviðræður hvenær sem íslensk stjórnvöld kunni að óska þess.

Borgar sig að vera áfram umsóknarríki

Ísland á meiri möguleika á að gæta hagsmuna sinna í EES-samstarfinu ef það viðheldur stöðu sinni sem viðurkennt umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×