Erlent

Fiskiskip frá Norður-Kóreu reka að landi í Japan

Samúel Karl Ólason skrifar
Eitt af draugaskipunum svokölluðu.
Eitt af draugaskipunum svokölluðu. Vísir/AFP
Vanbúin fiskiskip hafa rekið að landi í Japan síðustu vikur. Í skipunum eru lík sjámanna og er útlit fyrir að áhafnir hafi villst af leið. Skipin eru ekki búin staðsetningartækjum og talið er að þeim hafi verið siglt of langt frá landi í leit að auknum afla.

Alls hafa 12 skip og bátar fundist við og á ströndum Japan frá því í október. Í þeim voru 22 lík, samkvæmt frétt Reuters. Sumir bátarnir eru úr timbri og hafa einungis fundist hlutar af einhverjum þeirra.

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu heimsótti nýverið fiskvinnslu þar í landi.Vísir/AFP
Kim Jong-un hefur fyrirskipað að auka eigi veiðar í Norður-Kóreu til að efla hagkerfi einræðisríkisins. Minnst eitt skipið er talið hafa verið undir stjórn hersins. Sérfræðingar sem Reuters ræddu við segja líklegt að áhafnir skipanna hafi farið lengra frá landi en þeir réðu við til að finna gjöful fiskimið.

Skipin láta illa á sjó og eru búin lélegum vélum sem bila gjarnan. Talið er að sjómennirnir hafi látið lífið úr hungri eða vegna kulda, eftir að skipin týndust.

Milljónir manna í Norður-Kóreu eiga yfirleitt ekki nógan mat og herinn kemur að matvælaframleiðslu í landinu. Þar á meðal fiskveiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×