Viðskipti innlent

Fiski og frönskum undir Jökli fylgir teppi að láni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Söluvagn sem býður fisk og franskar er nýjasti útiveitingastaðurinn á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Hjón frá Akranesi, sem eiga sumarhús á staðnum, ákváðu að hafa opið í vetur þegar þau sáu svanga ferðamennina streyma á svæðið. Frétt Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan. 

Já, „fish and chips" útiveitingastaður á Arnarstapa og það um vetur,  þetta er eitt afsprengi ferðaþjónustunnar. Hjónin Herdís Þórðardóttir og Jóhannes Ólafsson byrjuðu með vagninn í júlí í fyrra og hugmyndin var að hafa opið rétt yfir sumarið en þau eiga bústað á Stapa.

Þegar þau sáu ferðamannafjöldann í vetur segjast þau hafa ákveðið að opna þar sem hvergi hafi verið hægt að komast á veitingastað á svæðinu nema á Hellnum. Við sáum ekki betur en að það væri nóg að gera.

„Það er reitingur,” segir Herdís. „Það er allt í lagi fyrir svona tvo gamlingja,” segir Jóhannes.

Jóhannes Ólafsson og Herdís Þórðardóttir í Fish & Chips-vagninum á ArnarstapaStöð 2/Sigurjón Ólason.
Við söluvagninn eru nokkrir útibekkir og borð. 

„Fólkið lætur sig hafa það að sitja hér úti þó að það sé kalt og þó að það sé snjór. En við leyfum þeim að fá teppi. Þeim finnst þetta bara spennandi og gaman að fá að borða úti,” segir Herdís. 

Og þorskurinn í þennan þjóðarrétt Breta gerist ekki ferskari, enda stutt niður á bryggjuna á Arnarstapa, og þau segja að Bretarnir sex sem voru nýfarnir hafi verið ánægðir. 

„Þeir sögðu bara: „Delicious". Svo við erum bara mjög ánægð með þetta og gaman að þessu,” segir Herdís. 

„Við höfum fengið rosalega góð viðbrögð, - mjög góð,” segir Jóhannes.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×