Viðskipti innlent

Finni á Prikinu seldi sig út úr Jamie's Italian

Haraldur Guðmundsson skrifar
Guðfinnur Sölvi Karlsson er eigandi Priksins og hluthafi í Macland.
Guðfinnur Sölvi Karlsson er eigandi Priksins og hluthafi í Macland. Vísir/Anton
Guðfinnur Sölvi Karlsson, betur þekktur sem Finni á Prikinu, hefur selt eignarhlut sinn í veitingastaðnum Jamie‘s Italian sem mun opna á Hótel Borg í lok maí. Finni og Jón Haukur Baldvinsson voru áður einu eigendur ítalska veitingastaðarins en nú hafa Sigurgísli Bjarnason og Stefán Melsted, hluthafar í veitingastöðunum Snaps og Jómfrúnni, og áðurnefndur Jón, keypt Finna út.

„Við hjónin erum að eignast okkar fimmta barn. Þetta snýst því um að vera ekki búa til enn eitt veitingahúsið þegar það er annað barn á leiðinni,“ segir Finni.

Sigurgísli staðfestir í samtali við Markaðinn að hann og Stefán muni koma að rekstri Jamie‘s Italian. Eigendaskiptin séu aftur á móti ekki að fullu frágengin og því geti hann ekki svarað því hversu stóran hlut þeir félagar munu eiga. Vill Sigurgísli ekki svara því hvort Birgir Bieltvedt, fjárfestir og viðskiptafélagi þeirra í Snaps og Jómfrúnni, muni koma að rekstri veitingastaðarins á Hótel Borg.

Tilkynnt var um opnun veitingastaðar sjónvarpskokksins Jamie Oliver í lok nóvember síðastliðnum. Jamie kom hingað til lands í febrúar í fyrra eða tveimur mánuðum áður en Finni kom að verkefninu. Aðspurður segir Finni að hann hafi í fyrstu verið eini hluthafi þess en Jón Haukur komið inn á seinni stigum. Samkvæmt tilkynningunni mun staðurinn bjóða einfaldan og klassískan ítalskan mat. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×