Erlent

Finnar óttast rússneskar áróðursárásir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands, á fundi þeirra í byrjun árs.
Vladimir Putin, forseti Rússlands, og Sauli Niinistö, forseti Finnlands, á fundi þeirra í byrjun árs. Vísir/AFP
Yfirvöld Finnlands hafa sífelt meiri áhyggjur af „áróðri“ Rússlands gegn Finnlandi. Löndin tvö deila rúmlega 1.300 kílómetra löngum landamærum og blóðugri sögu. Innlimun Rússlands á Krímskaga árið 2014 hefur aukið á áhyggjur Finna.

Meðal þess áróðurs sem Finnar hafa séð er að Rússar hafa dregið réttmæti sjálfstæðis Finnlands frá Rússlandi árið 1917 í efa.

Þá segja finnskir embættismenn sem fylgjast með áróðrinum að hann færist í aukana.

„Við teljum að þessum ágengna áróðri frá Rússlandi sé ætlað að skapa vantraust á milli leiðtoga og almennra borgara og fá okkur til að taka skaðsamar ákvarðanir,“ segir Markku Mantila við Reuters fréttaveituna.

„Þeim er einnig ætlað að draga úr trausti Finna til Evrópusambandsins og að vara Finna við því að ganga inn í NATO.“

Mantila segir að hópurinn sem hann er í forsvari fyrir hafi fundið 20 staðfest tilfelli um áróðursárásir gegn Finnlandi á undanförnum árum og um 30 sem séu mjög líklega einnig árásir.

„Það er kerfisbundin áróðursherferð í gangi. Þetta er ekki spurning um slæma fréttamennsku. Ég tel þessu vera stýrt frá miðjunni.“

Staðreyndir gegn áróðri

Mantila bendir á fréttir sem voru í fjölmiðlum í Rússlandi í síðasta mánuði. Þar hafi verið fjallað um að „kaldrifjuð“ yfirvöld Finnlands hafi tekið barn frá rússneskri fjölskyldu í Finnlandi eingöngu vegna þjóðernis þeirra.

Yfirvöld í Finnlandi hafa þvertekið fyrir þessar ásakanir, en þær hafa verið endurfluttar ítrekað í Rússlandi.

Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, segir Reuters að stjórnvöld Finnlands reyni að bregðast við áróðrinum með því að koma staðreyndum á framfæri.

„Öll ríki vinna með áróður og einræðisríki gera það sérstaklega mikið,“ sagði Soini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×