Körfubolti

Finnar mæta með einn 38 ára gamlan á HM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hanno Möttölä fagnar einum sigranna á EM í fyrra með liðsfélögum sínum í finnska landsliðinu.
Hanno Möttölä fagnar einum sigranna á EM í fyrra með liðsfélögum sínum í finnska landsliðinu. Vísir/AFP
Finnar eru einu fulltrúar Norðurlandanna á HM í körfubolta sem hefst á Spáni á morgun. Finnar fá verðugt verkefni og mæta Bandaríkjamönnum í fyrsta leik.

Finnska liðið sló í gegn á EM í Slóveníu í fyrra þar sem liðið náði 9. til 10. sæti. Finnar ætlar að fjölmenna til Bilbao og það er mikið körfuboltaæði í Finnlandi þessi misserin.

Hinn gamalreyndi Hanno Möttölä verður með Finnum á HM en hann heldur upp á 38 ára afmælið sitt á mótinu. Möttölä meiddist illa á hné á EM fyrir ári síðan en er kominn aftur til baka. Möttölä er líklega besti körfuboltamaður Finna fyrr og síðan og spilaði um tíma með Atlanta Hawks í NBA-deildinni.

Finnar eru annars með reynt lið á heimsmeistaramótinu en þar eru einnig hinn 33 ára gamli framherji Kimmo Muurinen, hinn 33 ára gamli leikstjórnandi Teemu  Rannikko og hinn þrítugi kraftframherji Gerald Lee.

Einn af nýjum mönnunum er hinn 208 sentímetra hái Erik Murphy sem spilaði með Chicago Bulls í NBA-deildinni á síðasta tímabili en er nú í herbúðum  Cleveland Cavaliers.

Murphy, sem á finnska móður, lék sína fyrstu landsleiki í ágúst en hann er 23 ára gamall og sonur bandaríska körfuboltamannsins Jay Murphy sem lék á sínum tíma í NBA.

Finnar eru í riðli með Bandaríkjunum, Úkraínu, Dóminíska Lýðveldinu, Tyrklandi og Nýja-Sjálandi en fjórar efstu þjóðirnar tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×