Innlent

Fínasta grillveður á morgun: Hiti gæti náð allt að 17 stigum

Birgir Olgeirsson skrifar
Staðarspá Veðurstofu Íslands fyrir annað kvöld.
Staðarspá Veðurstofu Íslands fyrir annað kvöld.
Landsmenn eiga að geta dregið fram grillin annað kvöld tiltölulega lausir við áhyggjur af því að dropar muni falla af himni. Reikna má með að allir helstu grillmeistarar landsins muni leika listir sínar annað kvöld áður en flautað verður til leik í úrslitum söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands er útlit fyrir fínasta veður um helgina með rólegum vindi. Yfirleitt vestlæg átt eða hafgola. Vestan til á landinu verður að mestu skýjað en yfirleitt þurrt, en í öðrum landshlutum má gera ráð fyrir að sólin nái eitthvað að skína, einkum suðaustanlands. Milt í veðri og hiti allt að sautján stig suðaustanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun: 

Vestlæg átt 3-10 m/s, en bætir í vind NV-til á morgun. Skýjað og úrkomulítið um landið V-vert. Skýjað með köflum eða bjartviðri í öðrum landshlutum. Hiti 6 til 17 stig, hlýjast SA-lands.

Á sunnudag:

Vestlæg átt, 3-10 m/s, en suðvestan 8-15 NV-til. Víða bjartviðri, en skýjað að mestu V-lands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á SA-landi.

Á mánudag:


Snýst í norðaustanátt með rigningu, en dálítilli slyddu eða snjókomu fyrir norðan. Hiti 3 til 9 stig, en um frostmark fyrir norðan.

Á þriðjudag:


Austlæg átt, skýjað með köflum og hiti 0 til 4 stig, en bjart um landið V-vert og hiti 4 til 9 stig.

Á miðvikudag:


Breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 4 til 9 stig.

Á fimmtudag:


Útlit fyrir suðaustlæga átt með vætu S-til, en léttskýjað norðanlands. Heldur hlýnandi veður. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×