Innlent

Fín frjósemi á Klaustri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps
Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps
Frjósemi virðist vera með allra besta móti á Kirkjubæjarklaustri og í sveitunum í kring því börnum fjölgar svo mikið að stækka þarf leikskólann Kærabæ á Klaustri. Ákveðið hefur verið að kaupa færanlega kennslustofu fyrir tæplega 11 milljónir króna.

„Viðbótin við leikskólann kemur til vegna mikillar fjölgunar leikskólabarna og til að útrýma biðlista sem hefur myndast. Fjöldi barna á leikskóla hefur á einu ári farið úr 13 í 26 og eru börn á bið eftir plássi. Eftir stækkun verður húspláss fyrir yfir 30 börn,“ segir Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri.

Leikskólinn er í dag einnar deildar leikskóli en með nýju 80 fermetra viðbyggingunni verður honum skipt upp í tvær deildir. Stöðugildi við leikskólann hafa farið úr fjórum í sjö á síðasta ári og verða samtals átta þegar viðbyggingin verður komin í gagnið og börn sem eru á biðlista í dag komin inn.

Sandra Brá segir mikla uppbyggingu í Skaftárhreppi. „Það eru mörg verkefni í pípunum hér í Skaftárhreppi. Byggðar hafa verið níu íbúðir á síðustu tveimur árum og eru þrjár í byggingu nú á Kirkjubæjarklaustri. Mikill uppgangur er í ferðaþjónustu á svæðinu sem hefur bæði skilað sér í auknum tekjum og fjölgun íbúa. Framkvæmdir gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs hefjast á árinu sem við bindum vonir við að verði mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi. Hér eru einnig ungir bændur að hefja byggingu á nýju fjósi, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sandra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×