Innlent

Fimmtungi fleiri barnaverndartilkynningar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Frá janúar til maí bárust 1.870 tilkynningar til Barnaverndarnefndar
Frá janúar til maí bárust 1.870 tilkynningar til Barnaverndarnefndar vísir/vilhelm
Fjöldi tilkynninga til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur hefur aukist um rúm 17 prósent á fyrstu fimm mánuðum þessa árs, samanborið við sama tíma í fyrra.

Frá janúar til maí bárust 1.870 tilkynningar til Barnaverndarnefndar, tilkynnt var um 1.047 börn eða hundrað fleiri en í fyrra og ákveðið að hefja könnun á aðstæðum 648 barna. Þrátt fyrir fleiri tilkynningar á þessu ári fjölgaði könnunum ekki svo mikið, einungis um 2,5%.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur
Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, segir að ekki sé búið að rýna í þessar tölur og athuga nánar í hvaða flokkum aukningin sé eða bera saman við þróunina á landsvísu. 

„Tilkynningar koma í sveiflum og getur fjölgun tilkynninga verið vísbending um að samdráttur hafi verið á síðasta ári. Einnig að það hafi verið afbrotahrina hjá börnum eða lögreglan duglegri við að tilkynna til okkar.“ 

Halldóra segir mikla vakningu í samfélaginu hafa valdið því að fleiri tilkynningar berast. Fólk sé mjög duglegt að láta vita ef grunur leikur á heimilisofbeldi, afbrotum eða slæmum aðstæðum barna. „Fólk er mjög meðvitað og lætur vita ef því ofbjóða aðstæður barna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×