Viðskipti innlent

Fimmtíu vísindamenn hjá Alvotech fyrir áramót

ingvar haraldsson skrifar
Starfsmenn Alvogen og Alvotech á Íslandi.
Starfsmenn Alvogen og Alvotech á Íslandi. mynd/alvogen
Alvogen og dótturfélag þess Alvotech hyggjast ráða að minnsta kosti 20 raunvísindamenn til viðbótar við þá 30 sem þegar hafa verið ráðnir til starfa hjá hátæknisetri fyrirtækjanna sem nú rís við Vísindagarða Háskóla Íslands.

Því verða að minnst 50 raunvísindamenn við störf hér á landi fyrir árslok. Alls hafa um 80 starfsmenn verið ráðnir til systurfyrirtækjanna, frá því Alvogen hóf starfsemi á Íslandi árið 2010.

Stefnt er að því að taka hátæknisetrið í notkun í ársbyrjun 2016. Systurfyrirtækin Alvogen og Alvotech verða bæði með aðstöðu í Hátæknisetrinu. Sex líftæknilyf eru nú í þróun hjá Alvotech í samvinnu við erlenda samstarfsaðila og fyrstu lyf fyrirtækisins eru væntanleg á markað frá árinu 2018 þegar einkaleyfi þeirra renna út.

Kolbeinn Guðmundsson, yfirlæknir Lyfjastofnunar, sagði nýverið í samtali við Fréttablaðið að flest lönd heims sýni varkárni þegar komi að því að skipta út frumlyfi fyrir líftæknilyfshliðstæður. Framleiðsla lyfjanna sé flókin og þörf sé á ítarlegum klínískum rannsóknum og tilraunum á sjúklingum áður en þau teljist örugg. Þó sé mikill hagur talinn af lyfjum sem þessum því þau sé ódýrari en frumlyfin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×