Lífið

Fimmtíu ára og eldri taka yfir Ísafjarðarbæ

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Birna Jónasdóttir segir landsmótið gríðarlega skemmtilegt.
Birna Jónasdóttir segir landsmótið gríðarlega skemmtilegt. MYND/GÚSTI.IS
Nú er hægt að skrá sig á landsmót UMFÍ fyrir fimmtíu ára og eldri.

Mótið verður sett á Silfurtorgi á Ísafirði þann 10. Júní. Eins og síðustu ár er búist við miklum fjölda fólks á landsmótið, en meðal annars verður keppt í stígvélakasti, pönnukökubakstri, sundi, frjálsum íþróttum, skák, strandblaki og skotfimi. Mótið sem var fyrst haldið árið 2011 nýtur mikilla vinsælda og nú þegar hefur fjöldi þátttakenda skráð sig og sumar keppnisgreinar fyllst.

Birna Jónasdóttir, landsmótsstjóri, segir þó enn laust í ýmsar skemmtilegar greinar á borð við badminton, körfubolta, strandblak og þríþraut.

Á síðasta ári tóku á fjórða hundrað keppendur þátt, en nú þegar hafa skráð sig yfir 270 einstaklingar í ár.

Birna segir mikla spennu fyrir setningu mótsins á föstudagskvöld, en segir félagslífið ekki skipa minni sess en íþróttirnar á landsmótinu.

„Við erum með kaffihúsakvöld á föstudeginum þar sem verður svo dæmi sé tekið keppt í línudansi, sem er mjög spennandi. Á laugardagskvöldinu er svo skemmtikvöld þar sem BG flokkurinn treður upp. Það er ekki leiðinlegt að hittast og hafa gaman í lok keppnisdags,” segir Birna að lokum og hvetur sem flesta til að skrá sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×