Körfubolti

Fimmtán stiga tap í fyrsta leik á Póllandsmótinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, ræðir við sína menn í leiknum í dag.
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari, ræðir við sína menn í leiknum í dag. mynd/kkí
Ísland tapaði fyrir Póllandi, 80-65, í fyrsta leik sínum á æfingamóti í Póllandi í kvöld. Þetta var 500. landsleikur íslenska karlalandsliðsins í körfubolta frá upphafi.

Pólska liðið var með undirtökin allan leikinn og leiddi með 11 stigum, 20-9, undir lok 1. leikhluta.

Logi Gunnarsson náði að minnka muninn í 20-12 fyrir leikhlutaskiptin en Njarðvíkingurinn var stigahæstur í íslenska liðinu í kvöld með 19 stig.

Ísland spilaði betur í 2. leikhluta og minnkaði forystu pólska liðsins jafnt og þétt. Og 40 sekúndum fyrir hálfleik minnkaði Logi muninn í eitt stig með þriggja stiga körfu.

Íslenska liðið hélt í við heimamenn framan af 3. leikhluta en í stöðunni 44-42 kom góður kafli hjá Pólverjum sem gerðu átta stig í röð og komust 10 stigum yfir, 52-42.

Átta stigum munaði á liðunum fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Íslenska liðið hóf lokaleikhlutann á 7-1 spretti og Hlynur Bæringsson minnkaði muninn í fimm stig, 60-55, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum.

En þá kom bakslag og Pólverjarnir reyndust sterkari á lokasprettinum. Og svo fór að heimamenn unnu 15 stiga sigur, 80-65.

Logi var sem áður segir stigahæstur í íslenska liðinu með 19 stig en Jón Arnór Stefánsson kom næstur með 12 stig. Hlynur átti einnig góðan leik með 10 stig, 12 fráköst og sex stoðsendingar. Pavel Ermonlinskij var hvíldur í dag vegna smávægilegra meiðsla.

Ísland mætir Líbanon í öðrum leik sínum klukkan 15:30 á morgun. Á sunnudaginn mætir íslenska liðið svo því belgíska í síðasta æfingaleik sínum fyrir EuroBasket á sunnudaginn klukkan 13:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×