Innlent

Fimmtán hundruð missa atvinnuleysisbætur á næsta ári

Höskuldur Kári Schram skrifar
vísir/daníel
Tæplega fimmtán hundruð manns munu að óbreyttu missa rétt til atvinnuleysisbóta á næsta ári vegna styttingar bótatíma. Búist er við því að helmingur þessa fólks muni leita til sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð en kostnaður vegna þessa hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum.

Fimm þúsund og átta hundruð manns voru án vinnu í síðasta mánuði og mældist atvinnuleysi 3,1 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þegar mesta var í nóvember 2009 voru rúmlega 13 þúsund manns án vinnu en síðan þá hefur atvinnuleysi farið minnkandi.

Alþingi samþykkti í síðustu viku að stytta rétt fólks til atvinnuleysisbóta úr þremur árum í tvö og hálft. Breytingarnar taka gildi um næstu áramót en þá missa um fimm hundrað manns rétt á bótum.

„Við erum búin að hitta þessa einstaklinga á síðustu tveimur mánuðum og gera þeim grein fyrir því hvað er í pípunum og hvetja menn til aðgerða í því samhengi,“ segir Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar.

Fólk sem missir atvinnuleysisbætur getur leitað til sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð en að óbreyttu missa um fimmtán hundruð manns bótarétt á næstu tólf mánuðum.

„Ef við gefum okkur þær forsendur að tæplega helmingur af þeim óski eftir fjárhagsaðstoð þá kostar þetta um hálfan milljarð á ári fyrir sveitarfélögin. Þá bætist þessi hálfi milljarður við þá fimm milljarða sem sveitarfélögin verja nú þegar til fjárhagsaðstoðar og hefur tvöfaldast frá árinu 2009,“segir Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×