Lífið

Fimmtán ára stofnuðu mannréttindaráð

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Þær vinkonurnar segja það ómetanlegt að geta hjálpað öðrum.
Þær vinkonurnar segja það ómetanlegt að geta hjálpað öðrum. Vísir/Vilhelm
„Við erum allar í ungliðastarfi Amnesty og okkur fannst krakkar á okkar aldri vita lítið um mannréttindamál,“ segir Karólína Sigríður Guðmundsdóttir, kölluð Líba, nemandi í 10. bekk í Laugalækjarskóla.

Hún og vinkonur hennar, Þórhildur Elísabet Þórsdóttir og Steinunn Jónsdóttir, stofnuðu mannréttindaráð í skólanum. Hlutverk þess er að fræða nemendur um mannréttindi og hafa þær nú þegar gengið á milli bekkja og kynnt ráðið.

„Það eiga allir rétt á því að hafa mannréttindi. Við erum bara heppnar, við búum ekki við fátækt eða í slæmum aðstæðum,“ segir Líba. Hún segir tilfinninguna að hjálpa öðrum svo ómetanlega. „Það eru svo margir sem halda að þetta sé leiðinlegt en það er svo gaman að hjálpa öðrum.“

Í síðustu viku sáu þær um skipulagningu á 25 ára afmælishátíð Barnasáttmálans í skólanum og eftir áramót halda þær peningasöfnun. „Við ætlum líka að gera lista yfir fyrirtæki sem ætti ekki að versla við, þar sem þau eru að fremja mannréttindabrot,“ segir Líba. „Vonandi verður ráðið áfram starfandi eftir að við förum úr skólanum. Það er svo gott að geta skilið eitthvað gott eftir sig.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×