Innlent

Fimm þúsund þjóðhátíðargestir komnir

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Gísli Óskarsson skrifar

Hátt í fimm þúsund þjóðhátíðargestir eru komnir til Vestmannaeyja en þangað virðist straumurinn liggja þessa verslunarmannahelgi.

Það var mikið um að vera í Herjólfsdal í dag þar sem þjóðhátíðargestir voru í óðaönn við að koma sér fyrir. Gestirnir hafa mis mikið fyrir því að gera aðstæður í tjöldum sínum sem þægilegastar og þannig mátti sjá einn bera rúmið sitt á meðan annar festi mottu við tjaldið sitt. Allir voru þeir sannfærðir um að hátíðin verði skemmtilegt. Fjölmenni er þegar í dalnum.

Nokkur erill var á bráðamótöku sjúkrahúss Vestmannaeyja í nótt þar sem þjóðhátíðargestir leituðu ásjár vegna skráma og jafnvel nefbrota. Ekkert stórt hefur þó komið upp á og allt gengið vel til þessa.

Gesti hefur streymt að síðustu daga og uppselt hefur verið í flestar ferðir Herjólfs. Skipið tekur fimm hundruð manns og fór þrjár ferðir í gær og í dag. Mikið hefur verið um að vera á bryggjunni þegar Herjólfur kemur enda fylgir gestunum og þó nokkuð af farangri.

Sólin hreinlega lék við þjóðhátíðargesti í dag sem nutu veðurblíðunnar í botn og kældu sig jafnvel með bjór ef marka má dósirnar sem sjá mátti hjá einum hópnum.

Erfitt er að meta hversu fjölmenn hátíðin verður en ánægja ríkir með blíðuna sem gestirnir fengu í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×