Fótbolti

Fimm sigrar í röð hjá Brössum sem pökkuðu erkifjendunum saman

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Síminn hringdi þegar Brassar fögnuðu marki Neymar. Það var á tali.
Síminn hringdi þegar Brassar fögnuðu marki Neymar. Það var á tali. vísir/getty
Brasilíumenn eru heldur betur í gírnum í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM 2018 en liðið vann erkifjendur sína frá Argentínu, 3-0, í nótt.

Leikurinn fór fram í Belo Horizonte þar sem Brassarnir töpuðu, 7-1, fyrir Þýskalandi í undanúrslitum HM 2014 en sú martröð var lögð til hliðar í nótt með frábærum sigri.

Phillipe Coutinho, leikmaður Liverpool, skoraði fyrsta markið með fallegu skoti og Neymar tvöfaldaði forskotið í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Hann slapp í gegnum vörnin eftir glæsilega sendingu Gabriel Jesus sem gengur í raðir Manchester City eftir áramót.

Paulinho skoraði þriðja mark Brasilíu í seinni hálfleik en liðið er nú búið að vinna fimm í röð og alls sjö af síðustu tíu án þess að tapa. Brassar töpuðu fyrir Síle, 1-0, í fyrstu umferð undankeppninnar en hafa síðan safnað 24 stigum af 30 mögulegum.

Brasilía er með efsta sæti riðilsins með 24 stig, stigi á undan Úrúgvæ sem er með 23 stig. Kólumbía er með 18 stig og Ekvador og Síle með 17. Argentínumenn eru í basli með 16 stig í sjötta sæti.

Efstu fjögur liðin fara beint á HM 2018 í Rússlandi en liðið sem hafnar í fimmta sæti fer í umspil um sæti á næsta HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×