Íslenski boltinn

Fimm mínútna draumakafli og Stjörnukonur aftur á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld þegar Stjörnukonur komust á topp Pepsi-deildar kvenna eftir 3-0 útisigur á FH í Kaplakrika.

Eyþór Árnason, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum í kvöld og náði þessum myndum hér fyrir ofan.

Stjörnukonur gerðu út um leikinn með þremur mörkum á síðustu fimm mínútunum í fyrri hálfleik.

Harpa Þorsteinsdóttir hefur þar með skorað þrettán mörk í fyrstu níu leikjum Stjörnuliðsins í sumar og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Stjarnan hélt þar með marki sínu hreinu í fyrsta leiknum eftir að liðið endurheimti landsliðskonuna Önnu Björk Kristjánsdóttur. Anna Björk kom á láni frá sænska liðinu Örebro þegar félagsskiptaglugginn opnaði.

Stjörnuliðið missti hina öflugu Donna Key Henry meidda af velli strax á 6. mínútu. Varamaður hennar, hin 19 ára gamla María Eva Eyjólfsdóttir, fiskaði hinsvegar vítið sem gaf fyrsta mark Stjörnunnar á 41. mínútu.

Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin 3-0. Agla María Albertsdóttir skoraði fyrst á 45. mínútu og svo skoraði Harpa sitt annað mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks með síðustu snertingu fyrri hálfleiksins.

Stjörnukonur afgreiddu leikinn með þessum fimm mínútna draumakafla og eftir það var leikurinn í öruggum höndum Garðbæinga.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni fótbolti.net.

Harpa Þorsteinsdóttir var á skotskónum í kvöld. Hér er Stjarnan um það bil að fá víti sem hún nýtti.Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×