Fótbolti

Fimm marka maðurinn kvartaði sáran undan kynþáttaníði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luiz Adriano með boltann í gær.
Luiz Adriano með boltann í gær. Vísir/AP
Luiz Adriano, framherji Shakhtar Donetsk, skoraði fimm mörk í stórsigri á BATE Borisov í Meistaradeildinni í gærkvöldi en greindi síðan frá því eftir leik að hann hafi mátt þola kynþáttaníð á meðan leiknum stóð.

Luiz Adriano varð í gær aðeins annar leikmaðurinn á eftir Lionel Messi til að skora fimm mörk í einum og sama Meistaradeildarleiknum og varð ennfremur fyrsti Brasilíumaðurinn til þess að skora fimm mörk í Evrópuleik.

„Ég heyrði mjög dónaleg köll, köll full af kynþáttaformdómum," sagði Luiz Adriano á heimasíðu Shakhtar Donetsk eftir leikinn í gær.

„Stuðningsmennirnir þeirra höguðu sér ósmekklega og ég er mjög vonsvikinn með það og móðgaður. Það var mjög ljótt að heyra þetta," sagði Luiz Adriano.

Luiz Adriano skoraði fyrstur allra í Meistaradeildinni fjögur mörk í fyrri hálfleik en tvö af fimm mörkum hans komu úr vítum.

„Ég er spenntur yfir því að metið mitt hjálpaði mínu liði. Þetta var fallegur og sögulegur sigur," sagði Luiz Adriano en Shakhtar Donetsk jafnaði félagsmetið yfir stærsta sigur þess í Meistaradeildinni frá upphafi. Þeir unnu líka MSK Zilina 7-0 árið 2010.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin hans Luiz Adriano í gærkvöldi.

Fimman sögulega hjá Luiz Adriano í gærkvöldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×