Innlent

Fimm íslenskir skákstjórar á ÓL í skák

Sveinn Arnarsson skrifar
Gunnar björnsson við taflborðið. Í Tromsö fer á næstu dögum fram kjör forseta Alþjóðaskáksambandsins.
Gunnar björnsson við taflborðið. Í Tromsö fer á næstu dögum fram kjör forseta Alþjóðaskáksambandsins. Fréttablaðið/GVA
Ólympíuskákmótið, sem fram fer1.-14. ágúst í Tromsö í Noregi, er nú haldið fyrir norðan heimskautsbaug í fyrsta skipti í skáksögunni.

Tvær íslenskar sveitir taka þátt í mótinu; karlaliðið í opnum flokki og kvennasveitin í kvennaflokki.

Í fyrsta skipti í sögunni verða fimm íslenskir skákstjórar á Ólympíuskákmótinu og er þetta liður í uppbyggingarstarfi Skáksambands Íslands vegna fyrirhugaðrar Evrópukeppni landsliða sem verður haldin hér á landi árið 2015.

Fjórir stórmeistarar eru í sveit Íslands í opnum flokki. Sveitina skipa Hannes Hlífar Stefánsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Þröstur Þórhallsson, Helgi Ólafsson og Guðmundur Kjartansson.

Kvennaliðið er skipað Lenku Ptácníková, stórmeistara kvenna, Hallgerði Helgu Þorsteinsdóttur, Jóhönnu Björgu Jóhannsdóttur, Tinnu Kristínu Finnbogadóttur og Elsu Maríu Kristínardóttur.

Liðsstjórar eru Ingvar Þór Jóhannesson og Jón L. Árnason.

Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, er einnig með í för og mun fyrir hönd Íslands sitja fund Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) þar sem kosið verður um forseta sambandsins.

Þar berjast Kirzan Iljumsjínov, núverandi forseti FIDE, og Garrý Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×