Innlent

Fimm hundruð fatlaðir bíða enn

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Fatlaðir bíða eftir þjónustu vegna þess að fjárveitingar duga ekki í málaflokkinn.
Fatlaðir bíða eftir þjónustu vegna þess að fjárveitingar duga ekki í málaflokkinn. vísir/anton
Stærstur hluti bið­lista eftir þjónustu til fatlaðra er tilkominn vegna skorts á fjármagni. Ekki er hægt að ráða inn starfsmenn til að sinna þjónustunni. Nærri því fimm hundruð fatlaðir einstaklingar eru í bið eftir stuðningsþjónustu í Reykjavík. Vandinn hefur verið ljós frá því í júní.

Fatlaðir sem eru í mikilli eða mjög mikilli þörf fyrir stuðningsþjónustu eru 36% þeirra sem eru í bið.

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir þörf á að auka fjármuni í stuðningsþjónustu til að hægt sé að koma til móts við fatlaða sem þurfa á þjónustunni að halda.

„Þessi staða í stuðningsþjónustunni hefur verið ljós allt þetta ár, við höfum farið yfir stöðuna í velferðarráði og í borgarráði til að allir séu upplýstir um hana. Þessi þjónusta sem er veitt er af margvíslegum toga, það er reynt að vega og meta í hverju tilviki hvort um sé að ræða lífsnauðsynlega eða mjög mikilvæga þjónustu.“

Hann segir vandann viðvarandi. Það reynist erfitt að fá starfsfólk til starfa. „Við erum í halla á þessum lið á fyrri hluta árs, það er það sem við okkur blasir. Við höfum ekki annan kost en að forgangsraða og setja fólk í bið.“

Stuðningsþjónusta fatlaðra hefur margs konar markmið, m.a. að koma í veg fyrir félagslega einangrun, bæta samskiptafærni, styðja einstaklinga til sjálfstæðis á heimili og í daglegu lífi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×