Innlent

Fimm hundruð á biðlista eftir stuðningi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Flestir á biðlistunum eru fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem óska eftir stuðningsfjölskyldum.
Flestir á biðlistunum eru fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem óska eftir stuðningsfjölskyldum. visir/vilhelm
Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna stuðnings við fatlað fólk í formi liðveislu eða stuðningsfjölskyldna hefur minnkað um 10-12 prósent á milli ára.

Eftirspurnin eftir þjónustunni hefur þó alls ekki minnkað enda eru á fimmta hundrað manns á biðlista, þar á meðal fjöldi barna sem bíða eftir liðveislu eða stuðningsfjölskyldum.

Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri þjónustu heim á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir biðlistann hafa lengst lítillega frá því í fyrra og vandann felast í of fáum starfsumsóknum. „Við höfum ekki fengið nógu mikið af umsóknum um að gerast stuðningsforeldrar til að mæta eftirspurn.“

Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri Þjónustu heim hjá Reykjavíkurborg
Berglind segir töluverðar kröfur gerðar til þeirra sem sinna starfinu; viðkomandi þurfi að vera heilsteyptur og með hreint sakavottorð og velja þurfi hvern og einn af kostgæfni enda sé um náið samstarf tveggja aðila að ræða.

„Því væri æskilegra að við hefðum fleiri umsóknir til að velja úr. Störf með fötluðu fólki og börnum eru gríðarlega gefandi og skemmtileg og henta vel með námi, ég vona að fólk sjái tækifærið í því.“ 

María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls
„Það getur verið grundvallaratriði fyrir foreldra að fá stuðningsfjölskyldu,“ segir María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls, ráðgjafarmiðstöðvar fyrir foreldra barna með sérþarfir. „Sérstaklega þegar umönnun barnsins er mikil. Sum börn með fatlanir sofa til dæmis lítið og foreldrarnir þá líka.“

María segir oft erfiðara að fá stuðningsfjölskyldur og liðveislu fyrir börn eftir því sem þau verða eldri, einnig börn sem eru með hegðunar- og samskiptavanda eða á einhverfurófi. „Einmitt fyrir þessar fjölskyldur getur stuðningur skipt sköpum til að fá nauðsynlega hvíld.“

María bætir við að mikill vilji sé fyrir hendi hjá félagsþjónustunni að útvega stuðning en erfitt virðist vera að finna fólk í störfin og gæti það mögulega tengst launakjörum. Það breyti þó ekki því að mikil þörf sé fyrir þjónustuna og hún sé lagalegur réttur fatlaðra barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×