Innlent

Fimm hundar drepið þrettán lömb

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fimm hundar hafa drepið þrettán lömb frá tveimur fjárbændum á Eyrarbakka á síðustu dögum. Tveir Labrador hundar hafa verið aflífaðir en lögregla leitar þriggja hunda sem eru taldir hafa átt þátt í drápinu.

Lögreglan á Suðurlandi var kölluð til á sunnudaginn á mýrina fyrir ofan Eyrarbakka þar sem tilkynnt var um tvo Labradorhunda sem höfðu verið að djöflast í hundum og drepið þau. Þeir voru staðnir að verki. Á mánudag sást svo til þriggja hunda í viðbót í lömbum og nokkur lömb fundust þá dauð. Lömbin eru mjög illa farin eftir hundana.

Þorgrímur ÓIi Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir leitina að hundunum óformlega. „Það er helst að þeir sem búa þarna á svæðinu séu að svipast um á þessum stöðum, eins og refaskytta sem hefur verið þarna á ferðinni. En það hefur ekki orðið vart við neitt síðan á mánudag,“ segir Þorgrímur. Hann bætir við að það hafi verið átakanlegt að sjá hversu illa lömbin voru farin.

„Mér skilst að það hafi verið farið í kviðinn á þeim flestum og það er ekki falleg sjón. Þetta tekur á fyrir alla sem koma að koma,“ segir hann.

Þorgrímur segir að þetta mál sé það fyrsta á Árborgarsvæðinu sem kemur upp í vor og sumar vegna dýrbíta og tvö önnur mál hafa komið upp annars staðar í umdæmi lögreglunnar. „Við höfum fengið austur í Vík eitt tilvik í vor og annað austur á Höfn, en það virðist vera að við fáum upp svona tilvik á hverju vori.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×