Lífið

Fimm ára snáði bræddi hjarta mömmu sinnar með rappi eftir Emmsjé Gauta

Anton Egilsson skrifar
Hinn fimm ára gamli Gunnar Erik er mikill aðdáandi Emmsjé Gauta.
Hinn fimm ára gamli Gunnar Erik er mikill aðdáandi Emmsjé Gauta. Skjáskot
Ungur og upprennandi rappari, hinn fimm ára gamli Gunnar Erik, kom móður sinni rækilega á óvart þegar hún hélt upp á þrítugsafmæli sitt á föstudagskvöld. Í myndbandi sem faðir hans tók upp og var sýnt í veislunni syngur Gunnar lagið Reykjavík með rapparanum Emmsjé Gauta af stakri snilld. Að sögn móður hans er hann í miklu uppáhaldi hjá þeim mæðginum.

„Ég er mjög mikill aðdáandi Emmsjé Gauta og við hlustum mikið á hann saman“ segir Helga Eir Gunnlaugsdóttir, móðir Gunnars.

Aðspurð um viðbrögðin við þessari skemmtilegu afmæliskveðju segir Helga að augu hennar hafi fyllst tárum. Það sama hafi verið upp á teningnum hjá fleiri veislugestum.

„Þegar lagið byrjaði þá fylltust augun af tárum. Það voru svo margar aðrar sem sögðu við mig að þær hefðu fellt tár yfir þessu. Eins og þetta er nú hresst lag þá var þetta bara svo ótrúlega krúttlegt.“

Helga segir Gunnar vera mikinn karakter og að hún geti vel séð hann fyrir sér í sviðsljósinu í náinni framtíð.

„Þetta er rosalegur karakter og hann verður klárlega í sviðsljósinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×