Innlent

Fimm ára fangelsisdómur staðfestur: Stakk mann rétt fyrir ofan hjartastað

Maðurinn játaði verknaðinn.
Maðurinn játaði verknaðinn. Vísir/getty
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir rétt rúmlega tvítugum karlmanni sem mun afplána fimm ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps. Maðurinn, sem heitir Leon Baptiste, játaði að hafa stungið annan mann en bar fyrir sig minnisleysi um nákvæma þætti málsins og vildi meina að þetta hefði ekki verið tilraun til manndráps.

Hann var dæmdur til þess að greiða fórnarlambinu milljón krónur með vöxtum og var auk þess dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað upp á tæplega 680 þúsund krónur.

Hnífsstungan átti sér stað heima hjá systur Leons og var maðurinn sem var stunginn gestur þar, ásamt kærustu sinni. 

Leon viðurkenndi fyrir héraðsdómi að hafa neytt eiturlyfja kvöldið sem hnífsstungan átti sér stað og telur geðlæknir að hann hafi þjáðst af aðsóknarkennd vegna neyslunnar. Þó kom fram í dómsorði að geðlæknir taldi Leon sakhæfan.

„Hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum“

Samkvæmt vottorði sérfræðings í bráðalækningum, sem notað var fyrir dómi, munaði eingöngu örfáum sentímetrum að stungan hefði lent í hjarta mannsins. Hann var með stunguáverka á brjósti, um 1,5 sentímetra langan og 6 sentímetra vinstra megin við miðlínu, beint yfir hjartastað. Við þreifingu fannst loftbrjóst, sem getur verið hættulegt ástand. Í vottorðinu segir að aðeins hafi munað örfáum sentímetrum að hnífslagið hefði náð til hjartans „og þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.“

Í dómsorði héraðsdóms er einnig sagt frá vitnisburði geðlæknis í málinu. Geðlæknir framkvæmdi geðrannsókn á hinum ákærða sem var lögð fyrir dóm. Í skýrslu  kemur fram að hegðun Leons megi rekja til eiturlyfjanotkunar. Læknirinn telur að Leon hafi þjáðst af aðsóknarkennd, en hana hafi mátt rekja til eiturlyfjanotkunar. Nokkrir dagar voru á milli viðtala læknisins við Leon og merkti geðlæknirinn mun á fasi Leons eftir því sem á leið og var Leon orðinn „alveg eðlilegur“ nokkrum dögum eftir fyrsta viðtalið, eins og kemur fram í dómsorði. Því taldist hann vera saknæmur.

Viðurkenndi stunguna

Leon viðurkenndi við þingfestingu í málinu á sínum tíma að hafa stungið manninn, en taldi sig ekki hafa ætlað að myrða hann. Fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa neytt kannabisefna, tekið svokallaðar rívó-pillur auk þess að hafa tekið inn amfetamín. Hann sagði neysluna ekki hafa verið stöðuga en „eitthvað inn á milli“ í um tvær vikur. 

Leon segir að hann hafi hitt manninn, sem hann kannaðist við, heima hjá systur sinni. Maðurinn hafi „verið á iði“ og verið æstur. Leon sagði frá því að maðurinn hafi hvolft úr poka sínum á borð eftir að hann kom. Þá segist Leon hafa beðið manninn um að yfirgefa íbúðina. Í dómsorði er vitnað í vitnisburð Leons og þar segir:

„Hann segist ekki hafa ætlað sér að meiða manninn eða drepa hann, enda hefðu þeir ekki átt í neinum útistöðum. Geti hann ekki skýrt af hverju hann gerði þetta.“

„Tala út frá sér“

Þar kemur einnig fram að Leon segist „ekkert svo“ muna að hafa stungið manninn og geti ekki munað til þess að hafa sótt hnífinn. Eftir að hafa stungið manninn hafi allt farið í uppnám og kveðst Leon hafa beðið hinn stungna afsökunar. Leon segist hafa verið „raunveruleikafirrtur“ og hrærst í „einhverjum draumaheimi“. 

Leon lýsti því að honum hafi fundist að aðrir væru að „tala út frá“ sér. Hann útskýrði það þannig að honum hafi þótt maðurinn hafa sagt eitthvað sem Leon hafi verið að hugsa. Hafi honum þótt stafa ógn af þessu.

Engin læti

Maðurinn sem var stunginn, kærasta hans og systir hins ákærða báru öll vitni í málinu. Ekkert þeirra kannaðist við nein læti fyrir hnífsstunguna og virðist hún hafa komið eins og þruma úr heiðskýru lofti. Maðurinn sem var stunginn segir frá því að hann hafi ekki orðið var við hnífinn fyrr en búið var að stinga hann. Í dómsorði segir: „Allt hafi farið í uppnám og kærasta hans tekið hnífinn og fleygt honum eitthvað frá. Ákærði hafi þó látið eins og ekkert hefði gerst og verið mjög rólegur. Hann segir ákærða hafa hjálpað sér á fætur og sagt: „Þetta er allt í lagi“. Eftir dálitla stund hafi hann fundið fyrir öndunarerfiðleikum og þá verið hringt í sjúkrabíl. Hann segist ekki hafa verið með neinn ófrið þarna áður í íbúðinni og ekki verið beðinn að fara þaðan.“

Systir hins ákærða segist hafa talað við hann fyrr um kvöldið sem verknaðurinn gerðist. Hún segist hafa fundið fyrir því að honum hafi ekki liðið vel. Hann hafi viljað hitta hana og hafi hann komið heim til hennar. Hún segir manninn sem var stunginn og kærustu hans hafa verið á förum þegar Leon kom til hennar. Hún segist ekki hafa séð hnífsstunguna en í vitnisburði hennar kemur fram að ekki komi aðrir til greina að hafa stungið manninn, annar en bróðir hennar. Hún segir að engin læti hafi verið í íbúðinni áður en hnífsstungan hafi átt sér stað.

Fimm ára fangelsi

Í niðurstöðu dómsins segir að sannað sé með játningu ákærða, sem studd er framburði vitnanna á vettvangi, svo og staðfestu læknisvottorði í málinu að Leon hafi veist að manninum með hnífi og stungið hann á hol í brjóstið, beint í hjartastað. „Verður að telja að hending hafi ráðið því að hnífurinn gekk ekki inn í hjartað. Jafnframt hlaut ákærða að vera ljóst að langlíklegast væri að maðurinn dæi haf hnífsstungi í þennan stað.“

Við ákvörðun refsingar var tekið fram að Leon hafi játað verknaðinn greiðlega. Hæfileg refsing hafi því verið fimm ára fangelsi, en frá þeirri vist dragast þeir dagar sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi. Hann hefur verið í fangelsi síðan í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×