Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps við stúdentagarða

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hinn sakfelldi í héraðsdómi þegar aðalmeðferð fór fram.
Hinn sakfelldi í héraðsdómi þegar aðalmeðferð fór fram. vísir/eyþór
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Rúnar Þór Jóhannsson í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Rúnar Þór hafði stungið vin sinn með hníf fyrir utan stúdentagarðana við Sæmundargötu þann 6. mars síðastliðinn. Hnífstungan hæfði fórnarlambið í lifrina og orsakaði lífshættulega slagæðarblæðingu og loftbrjóst.

Fyrir dómi játaði Rúnar Þór að hafa stungið félaga sinn. Verjandi hans taldi ekki rétt að sakfella hann fyrir tilraun til manndráps þar sem enginn ásetningur til dráps hafi legið að baki hnífstungunni. Rétt hefði verið að sakfella hann fyrir alvarlega líkamsárás.

Sjá einnig: „Þetta er vinur sem þú treystir og kemst að því að hann hafi stungið þig í bakið með hníf“



Í niðurstöðu dómsins segir að það hafi skipt sköpum að skurðteymi var statt á sjúkrahúsinu sem gat hafist handa við að aðstoða fórnarlambið tafarlaust. Aðeins hending hafi ráðið því að ekki fór verr. Rúnari Þór gæti ekki hafa dulist að langlíklegast væri að vinur hans hlyti bana af atlögunni. Því var hann sakfelldur fyrir tilraun til manndráps.

Í framburði Rúnars fyrir dómi kom fram að fórnarlambið hafi veitt fyrsta höggið og átti sá framburður sér stoð í fleiri gögnum málsins. Ekki var fallist á að viðbrögð hans hefðu falið í sér neyðarvörn þar sem viðbrögð Rúnars hafi ekki verið í nokkru samræmi við atlögu fórnarlambsins.

Frá árunum fimm dregst 109 daga gæsluvarðhaldsvist. Þá var Rúnari gert að greiða fórnarlambinu tæplega 2,3 milljónir króna í miska- og skaðabætur og allan máls- og sakarkostnað. Sú upphæð nemur tæpum tveimur milljónum króna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×