Sport

Fimleikaveisla í Laugardalshöllnni í dag og tímamót hjá Eyþóru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sér hér á Ólympíuleikunum í Ríó þar sem hún varð níunda í fjölþraut.
Eyþóra Elísabet Þórsdóttir sér hér á Ólympíuleikunum í Ríó þar sem hún varð níunda í fjölþraut. Vísir/Getty
Fimleikakeppni WOW Reykjavik International Games fer fram í Laugardalshöll í dag. Það er óhætt að segja að þar verði sannkölluð fimleikaveisla því tíu feiknasterkir erlendir gestir eru komnir til að taka þátt ásamt flestu af besta fimleikafólki landsins.

Þetta er í fyrsta sinn í 12 ár sem keppt er í fimleikum í Laugardalshöll og því mikill spenningur hjá fimleikafólkinu.

Eflaust bíða flestir spenntir eftir því að sjá íslensku fimleikakonuna sem keppir fyrir Holland, Eyþóru Elísabetu Þórsdóttur, en þetta er hennar fyrsta keppni hér á landi.

Eyþóra var í 9.sæti í fjölþraut á Ólympíuleikunum og valin bjartasta von Hollands í íþróttum á árinu 2016.

Einnig bíða margir eftir að sjá Oleg Vereniaiev frá Úkraínu sem var í 2.sæti í fjölþraut á Ólympíuleikunum í sumar og Ólympíumeistari á tvíslá.

Á meðal keppenda er líka Daria Spiridonova frá Rússlandi sem var heimsmeistari á tvíslá árið 2014 og 2015 og bandaríska landsliðskonan Syndey Johnson Scharpf. Meðfylgjandi er listi yfir alla keppendur.

Fimleikakeppnin hefst klukkan 15 á morgun og lýkur um klukkan 18. Miðaverð er 2.000 krónur fyrir 18 ára og eldri, 1.000 krónur fyrir 13-17 ára, 500 krónur fyrir 6-12 ára og frítt fyrir 5 ára og yngri.

Forsala á miðum var hjá fimleikafélögunum í Reykjavík í gær og í fyrradag sem gekk mjög vel og augljóst að fólk ætlar ekki að láta þessa fimleikaveislu framhjá sér fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×