Erlent

Fílum í Afríku hefur fækkað hratt síðasta áratuginn

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Óttast er að aðeins 400 þúsund fílar séu eftir í Afríku.
Óttast er að aðeins 400 þúsund fílar séu eftir í Afríku. Vísir/Getty
Ný rannsókn hefur leitt í ljós að fílum í Afríku hefur fækkað um 111 þúsund dýr síðastliðinn áratug. Veiðiþjófnaður er talinn helsta orsök fækkunarinnar. Lífssvæði afríkufílsins eru eru jafnframt á undanhaldi og hefur það haft slæm áhrif á afdrif stofnsins.

Samkvæmt frétt BBC eru um 30 til 40 þúsund dýr veidd í Afríku árlega. Veiðiþjóafarnir eru á höttunum eftir fílabeininu en aukin eftirspurn er eftir fílabeini á asískum markaði. Talið er að aðeins 400 þúsund fílar séu eftir í Afríku.

Austurhluti Afríku hefur komið hvað verst út en veiðiþjófnaður er sérlega algengur í þeim hluta heimsálfunnar. Þar sem tilraunir hafa verið gerðar til þess að vernda fíla, svo sem norðurhluta Kenýu, er ástandið ekki jafn slæmt og virðast fílarnir dafna ágætlega á þeim slóðum.

Ljóst er að grípa þarf til aðgerða til þess að sporna gegn veiðiþjófnaði en nú stendur yfir ráðstefna um alþjóðleg viðskipti á dýrum í útrýmingarhættu í Jóhannesarborg. Niðurstöður rannsóknarinnar verða með helstu viðfangsefnum ráðstefnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×