Innlent

Fíkniefnastefna stjórnvalda mótuð fyrir ráðstefnu S.Þ.

Heimir Már Pétursson skrifar
Ný samtök um skaðaminnkun í fíkniefnamálum, Frú Laufey, voru stofnuð í gær, en talskona þeirra sagði á fundi með fyrrverandi forseta Sviss í dag að skilaboð hennar væru mikilvægt innlegg í umræðuna. Formaður nefndar heilbrigðisráðherra um fíkniefnastefnuna segir mikilvægt að Ísland móti nýja stefnu fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á næsta ári.

Ruth Dreifuss fyrrverandi innanríkisráðherra og forseti Sviss og sendiboði Alþjóðanefndar um stefnuna í fíkniefnamálum hóf heimsókn sína til Íslands með viðtali í Íslandi í dag á fimmtudag. Viðtalið má sjá hér. Hún hefur síðan átt fundi með heilbrigðisráðherra og innanríkisráðherra en í dag flutti hún erindi á opnum fundi í Odda Háskóla Íslands.

Umræðan um fíkniefnamálin í heiminum hefur breyst og sú umræða hefur náð til Íslands. Fjöldi manns mætti til að hlusta á Ruth Dreifuss í Odda í dag þar sem fram kom greinilegur áhugi á að breyta stefnunni í þessum málum.

Undanfarin fimm ár hefur frú Ragnheiður þjónað sprautuefnaneytendum en í gær voru samtökin frú Laufey stofnuð til að vinna að skaðaminnkun í samfélaginu.

„Þetta er fagfólk sem vill láta enn frekar til sín taka og huga að því að efla þessa þjónustu. Samþætta heilbrigðis- og velferðarkerfið og gera það að verkum að við getum búið til heilstæða þjónustu fyrir einstaklinga sem þurfa á þvi að halda. Sem verða fyrir skaða vegna vímuefnanotkunar,“ segir Helga Sif Friðjónsdóttir doktor í geðhjúkrunarfræði og einn stofnenda Frú Laufeyjar.

Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði tók ásamt henni og Borgari Þór Einarssyni formanni nefndar heilbrigðisráðherra um endurskoðun stefnunar í fíkniefnamálum þátt í pallborði með Ruth Dreifuss að loknu erindi hennar í Odda í dag.

„Það má segja að Íslendingar hafi fylgt raunverulega þeirri stefnu sem hefur verið víðast hvar ríkjandi. Sem er leið refsivandarins gagnvart þessum vanda,“ segir Helgi.

Dreifuss bendi á nauðsyn þess að endurskilgreina fíkniefnavandann sem heilbrigðis- og félagsmál. „Ég held að þetta séu sjónarmið sem við verðum að taka til greina með einhverjum hætti. Reyna að einhverju leyti að hafa hughrekki til að skoða þessi mál á nýjan leik. Þá kannski sérstaklega hvað snertir refsingu á einstaklingum fyrir vörslu og neyslu á þessum efnum,“ segir Helgi.

Nú er starfandi nefndsérfræðinga á vegum heilbrigðisráðherra um endurskoðun stefnu íslenskra stjórvalda sem skilar af sér í haust en nefndin hefur þegar lagt til að hún muni starfa áfram í anda réttarfarsnefndar, ráðuneytinu og Alþingi til ráðgjafnar. En á næsta ári verður stór ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um þessi mál.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að við komum þar með einhverja skoðun á málinu. Það er hluti af því sem nefndin er að gera, að undirbúa stefnu sem íslensk stjórnvöld munu hafa í þessu máli og hvoru megin línunnar við ætlum að standa,“ segir Borgar Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×