Erlent

Fíkniefnalöggjöf á Jamaíku rýmkuð

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jamaíkumaðurinn Bob Marley var mikill talsmaður marijúana á sínum tíma.
Jamaíkumaðurinn Bob Marley var mikill talsmaður marijúana á sínum tíma. VISIR/AFP
Yfirvöld á Jamaíka hafa ákveðið að afglæpavæða neysluskammta af marijúana.

Þetta kemur fram í frétt Al Jazeera um málið.

Portia Simpson-Miller, forsætisráðherra landsins, og ráðuneyti hennar tóku ákvörðun þess efnis þann 2. júní síðastliðinn. Fyrirhugaðar lagabreytingar fela í sér að eignarhald á litlum sköttum af marijúana til einkanota varði ekki lengur fangelsisvist og að neysla þess heima fyrir og í læknisfræðilegum tilgangi verði að sama skapi lögleg.

Yfirvöld hafa einnig til skoðunar að leyfa neyslu marijúana, eða ganja eins og það er betur þekkt á eyjunni, í trúarlegum tilgangi sem og að náða alla þá sem sitja nú í jamaískum fangelsum vegna brota á eldri fíkniefnalöggjöf.

Í kjölfar lagabreytinganna verður löglegt að vera með allt að 56 grömm af efninu á sér á almannafæri.

Mun Jamaíka þannig bætast í hóp fjölda annarra ríkja sem ákveðið hafa að fara þessa leið í fíkniefnamálum, nú síðast Úrúgvæ og fylkin Colorado og Washington í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Kannabis skilar Colorado tekjum í ríkiskassann

Ný lög sem tóku gildi í Colorado þann fyrsta janúar síðastliðinn, og leyfa sölu á kannabisefnum í ríkinu, skiluðu tveimur milljónum dollara, um tvöhundruð og tuttugu milljónum króna, í ríkiskassan í janúarmánuði einum saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×