Fótbolti

FIFA-menn fengu þriggja milljón króna úr frá Brasilíumönnum

Greg Dyke.
Greg Dyke.
Formaður enska knattspyrnusambandsins, Greg Dyke, hefur ákveðið að skila rándýru úri sem hann fékk að gjöf frá brasilíska knattspyrnusambandinu í sumar.

Fjölmargir meðlimir Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, fengu úrið að gjöf á HM síðasta sumar. Úrið er ekki af ódýrari gerðinni en það kostar 3,1 milljón króna.

Siðanefnd FIFA hefur farið fram á að allir meðlimir sambandsins sem fengu þessi úr skili þeim. Að öðrum kosti verði þeim refsað.

Dyke segist ekki hafa haft hugmynd um að úrið hafi verið í gjafapokanum sem hann fékk. Pokinn hafi setið ósnertur á skrifstofu hans síðan hann kom heim frá Brasilíu. Úrið sé enn í umbúðunum og verði skilað hið fyrsta.

Michel Platini, forseti UEFA, ætlar einnig að skila sínu. Sepp Blatter, forseti FIFA, var á lista yfir þá sem áttu að fá úr en ekki er vitað hvað varð um hans.

Siðanefnd FIFA lítur þetta mál alvarlegum augum enda mega stjórnarmenn ekki þiggja svona dýrar gjafir. Talsvert margir virðast hreinlega ekki hafa kíkt í pokann sinn og einn fann úrið í ruslinu heima hjá sér.

Selja á úrin og gefa til góðgerðarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×