Innlent

FH-ingar vilja að bæjaryfirvöld staðfesti slit á samningaviðræðum

Benedikt Bóas skrifar
FH-ingar hafa fagnað mikið innan vallar undanfarin ár. Sömu gleði er ekki að finna hjá bæjaryfirvöldum.
FH-ingar hafa fagnað mikið innan vallar undanfarin ár. Sömu gleði er ekki að finna hjá bæjaryfirvöldum. vísir/ernir
Viðar Halldórsson, formaður FH, hefur óskað eftir formlegri staðfestingu á að samningar og viðræður um kaup Hafnarfjarðarbæjar á hlut í knatthúsunum Dverg og Risa sé lokið.

Samningur um kaup bæjarins á 55 prósenta hlut í húsunum fyrir 200 milljónir króna var kynntur í lok janúar.

Bæjarráð Hafnarfjarðar fól á fimmtudag Haraldi Haraldssyni bæjarstjóra að halda áfram með málið.

„Varðandi frágang annarra samninga aðila væri gott að hafa hraðann á og ljúka þeim með formlegri undirskrift eða slitum,“ segir í bréfi Viðars til Haraldar.

Á bæjarráðsfundi voru líka lögð fram bréf Viðars um að bærinn annars vegar aflétti veðsetningu á Kaplakrika sem stendur nú í tæpum 900 milljónum og hins vegar um meðferð gatnagerðargjalda vegna fyrirhugaðrar byggingar Skessunnar, 8.400 fermetra knatthúss og sjúkra- og hótelbyggingar.

Fram kemur í bréfi Viðars að FH fær greitt samkvæmt óundirrituðum rekstrar- og þjónustusamningi við bæinn. Viðræður um hann hafa staðið yfir í rúma 18 mánuði. Biður formaðurinn um að annaðhvort verði þeir undirritaðir eða að farið verði eftir samningum sem verið hafi í gildi í vel á annan áratug.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×