Íslenski boltinn

FH-ingar hafa rætt við Kristin Frey

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Freyr Sigurðsson í leik á móti FH í sumar.
Kristinn Freyr Sigurðsson í leik á móti FH í sumar. Vísir/Hanna
Kristinn Freyr Sigurðsson fór á kostum með bikarmeisturum Vals í Pepsi-deild karla í fótbolta í sumar og það þarf ekki að koma á óvart að bæði lið hérlendis sem og erlendis hafi áhuga á kappanum.

Kristinn Freyr fékk silfurskóinn og var kosinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar af leikmönnunum sjálfum en hann skorað þrettán mörk í 21 leik Pepsi-deildinni í sumar.

Kristinn Freyr er að verða 25 ára gamall og þetta var hans fimmta tímabil á Hlíðarenda en hann er uppalinn Fjölnismaður. Nú horfir Kristinn Freyr hinsvegar á möguleikann á því að komast út í atvinnumennsku.

„Ég hef heyrt frá Sundsvall og Östersund og það er líklegt að ég fari út í næsta mánuði og skoði aðstæður hjá þeim,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson í viðtali við Guðmund Hilmarsson í Morgunblaðinu í dag.

Valsmenn gætu fengið samkeppni frá Íslandsmeisturum FH fari svo að Kristinn Freyr spili áfram á Íslandi. Hann er því í góðri samningsstöðu í vetur.

„Valur vill halda mér og FH hefur rætt við mig svo það er að ýmsu að hyggja. Ég hef ekkert farið leynt með það að mig langar að spreyta mig í atvinnumennskunni,“ sagði Kristinn Freyr og bætti við:

„Ég verð 25 ára gamall í desember og er kannski að renna út á tíma hvað það varðar en mikilvægast af öllu er að taka rétta ákvörðun á þessum tímapunkti,“ sagði Kristinn Freyr í fyrrnefndu viðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×