Íslenski boltinn

FH-ingar fá til sín öflugan markvörð frá Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lindsey Harris mun verja mark FH í Pepsi-deild kvenna í sumar en FH-ingar hafa gert samning við þessa 23 ára bandarísku stelpu.

Lindsey Harris mun þarna spila sína fyrstu leiki utan Bandaríkjanna en hún kemur beint úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum, en undanfarin þrjú ár hefur hún spilað með University of North Carolina (UNC), sem er með eitt af sterkustu liðunum í bandaríska háskólafótboltanum.

Lindsey hefur einnig æft með 23 ára landsliði Bandríkjanna. Hér er því um öflugan markmann að ræða sem kemur til með að styrkja lið FH næsta sumar í Pepsí-deildinni.

„FH liðið endaði síðast tímabil í 6. sæti Pepsí-deildarinnar eftir að hafa komið upp úr 1. deildinni árið áður. Uppistaðan í FH liðinu eru ungar og efnilegar stelpur og því er árangur síðasta tímabils góður. Er það ætlun FH að byggja ofan á þennan góða árangur og stefnt er að því að búa til enn betra lið á næstu árum sem getur keppt við bestu lið deildarinnar,“ segir í Fréttatilkynningu frá Meistaraflokksráði kvenna hjá FH.

Lindsey Harris spilaði 25 leiki með University of North Carolina árið 2016 og fékk á sig aðeins 15 mörk í þeim. Hún varði 87 prósent skota sem komu á hana og hélt hreinu í tíu leikjum. UNC vann 17 leiki af þessum 24.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×