Íslenski boltinn

FH ætlar að styrkja sig í glugganum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslandsmeistarar FH ætla að styrkja leikmannahóp sinn fyrir seinni hluta tímabilsins.

Félagaskiptaglugginn er opinn fram að mánaðarmótum og FH-ingar eru að horfa í kringum sig.

„Við ætlum að styrkja okkur í glugganum en við viljum vanda til verksins og reyna að fá leikmann eða leikmenn sem passa inn í okkar leikskipulag,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við Vísi í hádeginu eftir blaðamannafund í tilefni af Evrópuleik FH og Dundalk í Kaplakrika.

Staðan eftir fyrri leikinn er 1-1 og FH nægir því markalaust jafntefli í leiknum á morgun til að komast áfram. Takist það bíða liðsins a.m.k. fjórir Evrópuleikir í viðbót. FH er á toppnum í Pepsi-deildinni og komið í undanúrslit Borgunarbikarsins svo álagið er mikið þessar vikurnar.

„Það er alltaf hægt að fá leikmenn en svo er spurning hvort þeir falli inn í leikskipulagið og hópinn,“ sagði Heimir.

Að hans sögn eru allir leikmenn FH klárir í slaginn fyrir leikinn á morgun að undanskildum Atla Guðnasyni sem rifbeinsbrotnaði í leiknum gegn ÍBV á laugardaginn.

Heimir sagði á blaðamannafundinum að Atli myndi væntanlega snúa aftur til æfinga eftir tvær vikur.

„Atli Guðna er náttúrulega grjótharður þótt hann beri það ekki með sér,“ sagði þjálfarinn í léttum dúr.

„Ég hef trú á því, og hann sagði það sjálfur, að hann verði byrjaður að æfa eftir tvær, í mesta lagi, þrjár vikur. Hann ætti að vera klár í byrjun ágúst.“

Leikur FH og Dundalk hefst klukkan 19:15 á morgun og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×