Lífið

Fetar í fótspor Leonardo DaVinci

Sigríður á vinnustofu sinni í Svíþjóð.
Sigríður á vinnustofu sinni í Svíþjóð. Vísir
„Það er svo gaman að fá eitthvað til að lifna við á striganum,“ segir Sigríður Huld Ingvarsdóttir er myndlistarnemi í The Swedish Academy of Realist Art í Stokkhólmi.

Skólinn sérhæfir sig í að kenna raunsæislist, stíll sem gamlir meistarar eins og Leonardo Da Vinci og Sandro Botticelli máluðu í. Líkt og nafnið gefur til kynna er það aðferð til að gera verkið eins raunverulegt og mögulegt er. „Raunsæislist hefur ekki verið áberandi í langan tíma, en hún er að koma aftur inn finnst mér og sífellt fleiri sækjast eftir þessari klassísku þjálfun,“ segir Sigríður Huld.

Hún segir það dálítið trikk að gera myndirnar raunverulegar. „Það eru margir sem segja strax vá þetta lítur út eins og ljósmynd, en það er ekki markmiðið að gera eins og ljósmynd heldur eins og raunverkuleikinn,“ segir hún. Sigríður segist ekki vita um marga Íslendinga sem hafi lært þessa tækni, en hún kynntist þessu í gegnum gamla kennararnn sinn. 

„Ég fékk að prufa margt, en eftir að hafa prufað mig áfram þá heillaðist ég alveg.“

Hún segir þessa menntun einnig nýtast vel í öðrum listfögum. „Þetta hentar einnig vel fólki sem vill vinna við að hanna tölvuleiki, gera teiknimyndasögur og þess háttar. Margir samnemendur mínir eru að vinna í því núna,“ segir Sigríður Huld.

Hægt er að fylgjast með Sigríði Huld og skoða verkin hennar á facebook síðunni hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×