Íslenski boltinn

Feta Fjölnisstrákarnir í fótspor þjálfara síns?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Atli Kristjánsson (númer 14) og Torfi Tímoteus Gunnarsson (24) með Árna Hermannssyni, formanni Knattspyrnudeildar Fjölnis.
Ísak Atli Kristjánsson (númer 14) og Torfi Tímoteus Gunnarsson (24) með Árna Hermannssyni, formanni Knattspyrnudeildar Fjölnis. Mynd/Kristján
Fjölnisstrákarnir Ísak Atli Kristjánsson og Torfi Tímoteus Gunnarsson eru báðir á leiðinni til Noregs þar sem þeir verða til reynslu hjá norska félaginu Brann.

Strákunum var boðið til Bergen í lok febrúar þar sem þeir fá tækifæri til að sýna sig og sanna.

Ísak Atli og Torfi Tímoteus eru báðir fæddir árið 1999 og verða því átján ára á þessu ári. Þrátt fyrir það eru þeir báðir komnir með hlutverk í meistaraflokki Fjölnis og hafa spilað flesta leiki Fjölnis á undirbúningstímabilinu.

Ísak Atli og Torfi Tímoteus voru báðir í byrjunarliði Fjölnis í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í gær og spilaði Torfi Tímoteus allan leikinn.

Ísak Atli Kristjánsson hefur spilað átján leiki með 18 ára landsliðinu og sex leiki með 16 ára landsliðinu. Torfi Tímoteus Gunnarsson hefur spilað fimmtán leiki með 18 ára landsliðinu og sex leiki með 16 ára landsliðinu.

Þeir voru báðir í hóp hjá Fjölni í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð en eiga enn eftir að fá sínar fyrstu mínútur í efstu deild.

Brann varð í öðru sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en reyndar langt á eftir Rosenborg sem vann yfirburðasigur.

Það sterk tenging í Brann í Fjölnisliðinu í dag. Ágúst Þór Gylfason, þjálfari strákanna, lék 77 deildarleiki með Brann á árunum 1995 til 1998.

Þetta verður skemmtileg reynsla fyrir strákana sem fá væntanlega sín fyrstu tækifæri í Pepsi-deildinni á komandi sumri nema þá að þeir vinni sér inn samning hjá Brann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×