Erlent

Festingin verði aftur blá í Kína

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ferðalangur með öndunargrímu á Torgi hins himneska friðar í lok janúar. Mengun í Peking-borg var mikil á köldustu dögum mánaðarins.   FRÉTTABLAÐIÐ/EPA
Ferðalangur með öndunargrímu á Torgi hins himneska friðar í lok janúar. Mengun í Peking-borg var mikil á köldustu dögum mánaðarins. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA
Ríkisstjórn Kína stefnir að því að bæta andrúmsloft í landinu með því að draga úr kolabrennslu til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. Í ofanálag verða seglin einnig dregin saman í ríkisrekstri á komandi ári. Þetta kom fram í stefnuræðu forsætisráðherrans Li Keqiang þegar kínverska þingið kom saman í gær.

Loftmengun er mikið vandamál í Kína sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar meiri þörf er á því að kynda hús. Reglulega berast myndir af fólki á gangi um stræti stórborga með grímur fyrir vitum sér til að forðast það að anda menguðu loftinu að sér. Ástandið getur verið sérstaklega slæmt á blíðviðrisdögum en þá er lítil ferð á reykjarmekkinum.

Xi Jinping, forseti Kína, og Li Keqiang áður en sá síðarnefndi flutti stefnuræðu sína. VÍSIR/EPA
„Við munum gera himininn bláan á nýjan leik,“ sagði Li meðal annars fyrir framan 3.000 þingmenn. Á næsta ári stefnir ríkisstjórnin að því að bæta núverandi kola- og sorpbrennslur til að draga úr losun mengandi efna. Þá verður aukið fjármagn sett í endurnýjanlega orkugjafa.

Í ræðunni kom Li einnig inn á að stefnt væri að tæplega 6,5 prósenta vexti hagkerfisins í ár. Í fyrra var stefnt að 6,5 til sjö prósenta vexti sem endaði að lokum í 6,7 prósentum. Sá árangur náðist með miklum útlánum, sprengingu í húsnæðismálum og milljarða fjárútgjöldum hins opinbera. Í ár er stefnt að því að kæla húsnæðismarkaðinn, draga úr útlánum og eyðslu ríkissjóðs. Stjórnvöld verða því að treysta á framtak einkaaðila og neyslu heimila landsins.

„Ástandið bæði innan- og utanlands þýðir að við þurfum að vera betur í stakk búin til að takast á við flóknari og alvarlegri aðstæður en við höfum þurft hingað til,“ sagði Li. Hann bætti við að slíkt væri uppi á teningnum á meðan stór hagkerfi reyndu að draga úr hnattvæðingu og halda að sér höndum.

Kína er annað stærsta hagkerfi heims sé litið til landsframleiðslu. Vöxtur þess hefur verið ævintýralegur en undir lok 20. aldarinnar og til ársins 2015 var meðal hagvöxtur um tíu prósent ár hvert. Var það hið allra mesta sem þekktist í heiminum þar til hægði á vextinum í fyrra. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×