Formúla 1

Ferrari menn fljótastir á föstudegi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Kimi Raikkonen var fljótastur á fyrri æfingunni.
Kimi Raikkonen var fljótastur á fyrri æfingunni. Vísir/Getty
Kimi Raikkonen á Ferrari var fljótastur á fyrri æfingu dagsins fyrir rússneska kappaksturinn sem fram fer um helgina. Sebastian Vettel, einnig á Ferrari varð fljótastur á seinni æfingunni.

Fyrri æfingin

Valtteri Bottas á Mercedes var annar fljótastur á æfingunni, einungis 0,045 sekúndum á eftir Raikkonen. Lewis Hamilton varð þriðji á Mercedes og Max Verstappen á Red Bull fjórði, þo rúmlega sekúndu á eftir Raikkonen.

Hluti af yfirbyggingunni á Force India bíl Esteban Ocon losnaði af og olli því að rauðum flöggum var veifað um skamma stund.

Sergey Sirotkin, þróunarökumaður Renault fékk að spreyta sig á æfingunni í bíl Nico Hulkenberg. Hann náði þó ekki að setja tíma, hann fór einn uppstillingarhring. Eftir það kom hann út á brautina en nam staðar í beygju tvö og sagði vélina hafa bilað. Hann tók ekki frekari þátt í æfingunni. Það er því ljóst að einhver vandræði eru með Renault vélina.

Romain Grosjean átti eitt ógnvekjandi augnablik á brautinni þegar hann missti getuna til að hemla.Vísir/Getty
Seinni æfingin

Raikkonen varð annar á seinni æfingunni. Ferrari bíllinn virðist finna sig vel á brautinni í Sochi. Frá því brautin í Sochi var vígð í kappakstrinum 2014 hefur einungis Mercedes liðið unnið á brautinni. Það gæti breyst á sunnudag.

Haas liðið hefur glímt við bremsuvandamál frá því liðið varð til, fyrir tímabilið í fyrra. Nú er svo komið að um helgina ætlar liðið að prófa bremsubúnað frá Carbon Industry í stað Brembo, sem liðið hefur notast við hingað til.

Á æfingunni missti Romain Grosjean alla hemlun úr Carbon Industry bremsunum sínum.

Bottas varð þriðji á seinni æfingunni. Hamilton varð fjórði.

Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 11:50 á morgun á Stöð 2 Sport og bein útsending frá keppninni hefst klukkan 11:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport 3.

Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Bílskúrinn: Ferrari slær frá sér í Barein

Sebastian Vettel á Ferrari tók forystu í heimsmeistarakeppni ökumanna með því að vinna þriðju keppni tímabilsins sem fram fór í Barein síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×