Innlent

Fergusonfélagið ók hringveginn til stuðnings forvörnum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Fjármagnið rennur í verkefnið Vináttu.
Fjármagnið rennur í verkefnið Vináttu.
„Við erum afskaplega þakklát yfir að fá þennan styrk úr þessari óvæntu átt,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Tveir félagar, Karl Friðriksson og Grétar Gústavsson, keyrðu hringinn í kring um landið á tveimur Massey Ferguson-traktorum og styrktu um leið Vináttu, forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti í leikskólum. Fergusonfélagið ákvað að styrkja málefnið með 50 þúsund króna framlagi.

„Þar sem þeir Karl og Grétar eru félagar hjá okkur fannst okkur því eðlilegt að félagið legði málefninu lið í þeirra nafni,“ sagði Þór Marteinsson, ritari Fergusonfélagsins, þegar hann afhenti Ernu styrkinn. Fergusonfélagið er félag áhugamanna um Ferguson-traktora.

Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti.

„Við erum í samstarfi við sex leikskóla um verkefnið og erum að vinna í að bjóða öllum leikskólum á landinu að taka þátt. Gildi verkefnisins eru virðing, umburðarlyndi, umhyggja og hugrekki og við höfum afhent leikskólum töskur ásamt þjálfun sem kennir þessi gildi í leikskólunum,“ segir Erna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×