Enski boltinn

Ferguson tekur þátt í stjóraleitinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Sir Alex Ferguson muni aðstoða Manchester United í leitinni að nýjum knattspyrnustjóra.

Ferguson átti stóran þátt í því að fá David Moyes til félagsins eftir að hann hætti sjálfur sem knattspyrnustjóri síðastliðið vor.

Moyes var í gær rekinn frá Manchester United eftir aðeins tíu mánuði í starfi. United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og keppir ekki í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Louis van Gaal og Carlo Ancelotti eru báðir orðaðir við starfið í Manchester, sem og Diego Simeone. Jürgen Klopp og Pep Guardiola hafa báðir útilokað að taka að sér starfið og þá þykir Laurent Blanc, stjóri PSG, ekki koma til greina.

Ryan Giggs var falið að stýra United til loka tímabilsins en að sögn The Guardian kemur ekki til greina að hann taki alfarið við liðinu í sumar. Stjórn United vilji fá reyndari stjóra í starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×