Enski boltinn

Ferguson: Ósanngjarnt að Mourinho sé sigursæll og svona myndarlegur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho hefur allt.
José Mourinho hefur allt. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, hafði ekkert nema góða hluti að segja um José Mourinho, stjóra Chelsea, í heimildamynd sem sýnd verður á BT Sport á öðru degi jóla.

Mourinho er einn albesti og sigursælasti knattspyrnustjóri sinnar kynslóðar, en hann vann Meistaradeildina með Porto og hefur í heildina unnið fjórtán stóra titla í fjórum löndum.

Til viðbótar við það talar hann fimm tungumál reiprennandi; portúgölsku, spænsku, katalónsku, ítölsku og ensku.

„Þetta er í raun ósanngjarnt. Hann er myndarlegur og kominn með svona George Clooney-stíl í hárið. En hann er líka frábær fyrirmynd og talar fimm tungumál,“ segir Ferguson.

„Hann byrjar sem túlkur fyrir Bobby Robson og fylgir honum til Barcelona þar sem hann vinnur svo undir Louis van Gaal. Allan tímann er hann að læra. Hann ætlaði sér alltaf að verða þjálfari.“

„Hann hefur samt aldrei spilað leikinn. Og talandi um það, bendið mér á forseta liðs sem myndi gefa þjálfara starf sem hefur aldrei spilað leikinn. Það er ekki hægt. En Mourinho gerði það.“

„Síðan fer hann til lítils liðs í Portúgal og eftir það til Porto og vinnur deildina, Evrópukeppni félagsliða og Meistaradeildina. Eftir það vinnur hann deildina með Chelsea og svo Inter. Hann hefur sett fordæmi fyrir þá sem vilja standa sig vel. Menn eiga ekki að láta hindranir standa í vegi fyrir sér,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×