Enski boltinn

Ferdinand opnar sig um sorgina: Byrjaði að drekka og skilur af hverju fólk fremur sjálfsmorð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rebecca og Rio eignuðust þrjú börn.
Rebecca og Rio eignuðust þrjú börn. vísir/getty
Rebecca Ferdinand, eiginkona fótboltamannsins fyrrverandi Rios Ferdinand, var aðeins 34 ára þegar hún lést eftir stutta baráttu við brjóstakrabbamein í maí 2015.

Í nýrri heimildarmynd, Rio: Being Mum And Dad, sem verður frumsýnd á BBC 28. mars fjallar Ferdinand um lífið eftir fráfall eiginkonu sinnar.

Í kjölfar fráfalls Rebeccu byrjaði Ferdinand að drekka ótæpilega og öðlaðist skilning á því af hverju fólk ákveður að fremja sjálfsmorð.

Rebecca og Rio giftu sig árið 2009.vísir/getty
„Ég var vanur að hugsa hvernig getur fólk sem fremur sjálfsmorð verið svona sjálfselskt? En núna skil ég hvernig þeim líður,“ sagði Ferdinand sem lagði skóna á hilluna skömmu eftir að Rebecca lést.

Ferdinand viðurkennir að hafa hallað sér að flöskunni í sorginni.

„Börnin voru sofnuð en ég gat ekki sofnað og vildi ekki hugsa um neitt. Ég fór í rúmið en fór svo niður og byrjaði að drekka brandí,“ sagði Ferdinand.

Hann segir að menningin í fótboltanum hafi gert honum erfitt fyrir að opna sig.

„Ég sat og grét í svefnherberginu mínu en að tala um tilfinningar var allt annar handleggur. Ég kem úr klefamenningunni. Ég var lokaður og taldi að það væri veikleikamerki fyrir menn að sýna tilfinningar,“ sagði Ferdinand.

Rio og Rebecca áttu þrjú börn sem hann þurfti allt í einu að sinna á allt annan hátt en hann hafði áður gert.

„Ég hafði aldrei búið til hádegismat! Ég þurfti að gera allt þetta. Ég var vanur að keyra börnin í skólann en þá þurfti ég bara að vakna 10 mínútum áður því þau voru klædd og búin að borða. Þau komu alltof seint í fyrsta sinn sem ég gerði þetta sjálfur,“ sagði hinn 38 ára gamli Ferdinand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×