Enski boltinn

Ferdinand: Rashford besti enski framherjinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rashford fagnar marki sínu í 4-1 sigrinum á Leicester City á laugardaginn.
Rashford fagnar marki sínu í 4-1 sigrinum á Leicester City á laugardaginn. vísir/getty
Rio Ferdinand segir að Marcus Rashford hafi verið besti framherjinn á Englandi síðan hann lék sinn fyrsta leik fyrir Manchester United í febrúar.

Rashford kom eins og stormsveipur inn í lið United á síðasta tímabili og skoraði fjögur mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir liðið.

Rashford hefur alls skorað 12 mörk í 25 leikjum fyrir United síðan hann þreytti frumraun sína með liðinu. Þrátt fyrir þessa frammistöðu var Rashford ekki valinn í fyrsta og eina landsliðshóp Sams Allardyce.

„Hann ætti að vera í næsta hóp og spila gegn Möltu,“ sagði Ferdinand sem lék í 12 ár með United.

„Ef við tökum með þrennuna sem hann skoraði með U-21 árs landsliðinu gegn Noregi hefur enginn enskur framherji skorað fleiri mörk síðan Rashford lék sinn fysta leik í febrúar.

„Það skiptir ekki máli hvað hann er gamall, hann á skilið að vera í landsliðshópnum. Hann hefur skorað mest frá því í febrúar og tölfræðin lýgur ekki.“

Rashford verður væntanlega í eldlínunni þegar United tekur á móti Zorya Luhansk í Evrópudeildinni í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:05 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×